Dásamlegur kjarasamningur

Jæja, þá liggur kjarasamningurinn fyrir. Hann býður uppá 2,8% kauphækkun á næsta ári og tæplega 10 þúsund króna uppbót hjá þeim sem eru á allra lægstu launum. Verðbólgan er nú um 4% og spáin fyrir næsta ár hefur verið 3,6%. Almenna kauphækkunin er vel undir þessu og að óbreyttu myndi það þýða kaupmáttarskerðingu. Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. Ef svo ólíkleg tekst til að það náist þá gæti kaupmáttur hins vegar aukist um 0,3% með 2,8% kauphækkun. Launamenn myndu þurfa stækkunargler til að sjá áhrifin af því í buddu sinni. Hins vegar eru mestar líkur á að verðbólgan verði meiri – eins og venjulega. Þá rýrnar kaupmátturinn. Ríkisstjórnin leggur aðgerðir sínar í skattamálum í púkkið, en þær skila fleiri krónum í efri tekjuhópana. Þær eru þó mjög hóflegar, eða sem nemur einni þunnbotna pizzu á mánuði fyrir meðaltekjufólk og tveimur pizzum fyrir þá sem eru með meira en milljón á mánuði í laun. Forseti ASÍ er hissa á að menn í verkalýðshreyfingunni séu ekki ánægðir með þetta. SA-menn hafa hins vegar ástæðu til að fagna. Þetta eru dásamlegir kjarasamningar fyrir þá. Glæsileg jólagjöf! Hagfræðingar sem tóku þátt í útrásinni og sem mærðu bankana fagna einnig í Mogganum og á Eyjunni. 

„Aðfararsamningar“ eða „útfararsamningar“?

Þetta eru sagðir “aðfararsamningar” að framtíðarskipan með lágar kauphækkanir, sem eru sagðar eiga að skila stöðugleika og kaupmáttaraukningu – að skandinavískri fyrirmynd. Kaupmáttaraukning framtíðarinnar á sem sagt einkum að koma af litlum sem engum kauphækkunum. Hugmyndin er sú, að ef menn hækka kaupið minna en verðbólgu nemur þá muni kaupmáttur aukast. Þetta kalla menn nú “kaupmáttarsamninga”. Forsendan er sú, að áróðurinn í frægu myndbandi Samtaka atvinnulífsins (SA) sé réttur, þ.e. að verðbólgan sé eingöngu of miklum kauphækkunum um að kenna. Hér áður fyrr hét það kaupmáttarrýrnun þegar kaup hækkaði minna en verðlag. En við virðumst lifa á tímum þar sem svart er hvítt – og hvítt er svar! Allt gengur.

“Aðfararsamningur” hefði átt að hafa alvöru markmið um að koma okkur betur upp úr feni hrunsins – og síðan hefði skandinavísk launastefna mátt koma í framhaldinu. Slíkur samningur hefði alveg mátt taka lengri tíma en eitt ár.

“Aðfararsamningur” hefði einnig mátt fást við framleiðniaukningu, vinnutíma og upptöku trausts gjaldmiðils til að koma okkur upp á plan Skandinava að öðru leyti. Það er tómt mál að tala um skandinavískar launahækkanir á Íslandi fyrr en aðstæður hér og þar eru betur jafnaðar fyrst.

Með þeirri leið sem nú er mörkuð verður láglaunaástandinu hér einfaldlega viðhaldið til framtíðar. Kanski “aðfararsamningarnir” væru betur nefndir “útfararsamningar”? Vonandi hef ég þó rangt fyrir mér um þetta síðasta… Við eigum samt að vera glöð og kát á jólum. Það er sem betur fer margt annað gott á Íslandi þó launin séu lág . 

Stefán Ólafsson prófessor við Háskóla Íslands skrifaði þessa athyglisverðu grein inn á eyjuna.is

 

 

Deila á