Aumingja ASÍ

Ef marka má heimasíðu ASÍ er tilgangur félagsins að berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og standa vörð um réttindi þeirra. Niðurstaða ASÍ í kjarasamningum fyrir 100.000 félagsmenn sína, eða um tvo þriðju af fólki í launaðri vinnu á landinu liggur nú fyrir. Þeir eiga að uppistöðunni til að verða fyrir kjararýrnun um allt að 1,4%, haldist verðbólgan eins og hún er núna, en um 0,9% samkvæmt verðbólguspá Íslandsbanka fyrir árið 2014. Þessi afspyrnuslaka frammistaða er svo afsökuð með þeim athygliverða hætti að vísa allri gagnrýni á bug, eins og þarna væri um innihaldslaust raus frekra barna að ræða.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, vill einnig halda því til haga að hann semur „ekki um kaup forstjóranna. Við sömdum aldrei um þau laun sem bankamennirnir fengu hér á Íslandi og voru orsök þess að misskipting jókst í landinu.“ Stolt forystusveitar ASÍ að hafa ekki komið nálægt þeim samningum sem orsökuðu verulegar kauphækkanir er því hér með fært til bókar… en einnig bent á þessa óneitanlega undarlegu afstöðu samtaka sem berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna: Þetta er hinum að kenna, þeim launamönnum sem náðu betri samningum en við… þeir hefðu betur haldið sér í lágu laununum sem við semjum um.

Gylfi bætir við í viðtali á RÚV að ekki megi heldur gleyma því að verkalýðshreyfingin er ekki að semja við sjálfa sig, hún er að semja við mótaðila. „Það er búið að endurnýja forystu Samtaka atvinnulífsins og hún mætti að þessu leyti með kannski harðara viðhorf en við höfum séð undanfarið.“ Hér er höfuð samninganefndar sem hefur kaup og kjör 100.000 manns í höndum sér að kvarta undan því að nýjir viðsemjemdur séu harðari en hann eigi að venjast. Svona eins og þegar börnin kvarta undan því að fara of snemma í rúmið á kvöldin – þetta er bara ósanngjarnt… aumingja ASÍ. Þetta hlýtur hins vegar að vekja hina 100.000 félagsmenn til umhugsunar, að mótaðilarnir eru það harðir að þeirra fólk ráði ekkert við þá, láta bara vaða yfir sig. Hvað er hægt að gera í því? Jú, annað hvort biðja Samtök iðnaðarins að vera aðeins blíðari og yndislegri í næstu samningalotu eða skipta um forystu í verkalýðshreyfingunni. Það þarf ekki prófessora í stjórnsýslufræðum til að ráða fram úr því hvor aðferðin bæri meiri árangur fyrir félagsmenn.

Svo var reynt að fá ríkisstjórnina að borðinu, til að höggva á hnútinn. Það fór svona, eins og segir í varnarpistli Gylfa eftir að fólk dirfðist að gagnrýna frammistöðuna: „Var þetta mjög miður, því þar með var tekjulægsta fólkið skilið eftir í þessari skattaaðgerð en þess í stað voru skattar þeirra allra tekjuhæstu lækkaðir meira. Það varð niðurstaða allra samninganefnda aðildarfélaga ASÍ á laugardagsmorgun að ganga til samninga þrátt fyrir þessa niðurstöðu, þó mikil reiði hefði verið í garð ríkisstjórnarinnar vegna þess að hún vildi frekar lækka skatta þeirra 10% launamanna sem hæstar hafa tekjurnar en að tryggja að þau 10% launamanna sem eru í hópi tekjulægsta fólksins fengju einhverja hlutdeild í þessari skattalækkunaraðgerð.“ Og svo í viðtalinu á Rás 2: „Við vildum að ríkisstjórnin myndi líka verja þá tekjulægstu. Það vildi ríkisstjórnin ekki gera.“ 

Það sem sagt misheppnaðist að ná fram alvöru kjarabótum fyrir almenning í landinu því samninganefnd Samtaka iðnaðarins var allt í einu svo hörð og af því að ríkisstjórnin er svo erfið og vond við lægst launaða fólkið – ríkisstjórn sem hefur aldrei farið í grafgötur með hægrisinnaða stefnu sína, hvorki fyrir né eftir kosningar, og notar orðfæri eins og „upprisa millistéttarinnar“ og stjórnarskrárvarinn eignarrétt þegar kemur að skattlagningu auðmanna. Það ætti sem sagt ekki að hafa komið Alþýðusambandinu svona gersamlega í opna skjöldu við hvað var að eiga þegar þeir gengu til samninga um bætt kjör alþýðunnar – en það sem kemur okkur hinum sem fylgjast með utan frá á óvart er hversu rosalega samninganefndin vanmetur eigin mátt. Hér ætla ég að minna á það vald sem Gylfi Arnbjörnsson og félagar í samninganefnd alþýðunnar hafa: Þeir geta lagt alla starfssemi þjóðfélagsins niður, ef þeir meta stöðuna sem svo að hagsmunaaðilar og slæmar ríkisstjórnir séu með eitthvað múður, eða í minnsta lagi hótað því að beita þessu öflugasta vopni sem fyrirfinnst í samningaviðræðum í hinum vestræna heimi, ef frá er skilið hernaðarvald. En þeir virðast láta sem þeir séu lömb á leið til slátrunar og virtust bara vilja samninga þennan tiltekna laugardagsmorgun, hvernig svo sem þeir litu út. Enda er þetta viðhorfið sem þeir koma með til hinna hörðu samningamanna, sé að marka pistil formanns ASÍ: „Ég er nokkuð viss um að niðurstaða samninganefndanna var ekki byggð á því að þeir teldu það sem á borðinu væri í samræmi við óskir þeirra eða væntingar, heldur frekar hvort líklegt væri að hægt yrði að ná frekari launahækkunum án verulegra átaka og tilkostnaðar sem ekki rynnu sjálfkrafa út í verðlagið þannig að lítið sæti eftir annað en tilkostnaðurinn við aðgerðirnar.“ Aumingja ASÍ.

Best að endurtaka þetta: „hvort líklegt væri að hægt yrði að ná frekari launahækkunum án verulegra átaka og tilkostnaðar sem ekki rynnu sjálfkrafa út í verðlagið“. Ef ekki væri nema fyrir þessa einu setningu er það skoðun þessa pistlahöfundar að Gylfi Arnbjörsson ætti að finna sér aðra og mun þægilegri innivinnu. Hjálpi okkur allir heilagir ef kjarabarátta mundi kosta átök! Hvaðan kemur svona athugasemd eiginlega? Hún kemur alla vega ekki frá hinum vinnandi manni sem er búinn að sjá viðskiptaheiminn sölsa undir sig eignir hans, troða svo í skjóli fákeppni og fáheyrilega illa rekins efnahagskerfis upp á hann okurvöxtum sem hvergi finnast í hinum vestræna heimi og greiða honum svo smánarleg laun til að standa undir öllu saman. Það kemur heldur ekki frá vongóðum kjósendum sem héldu að núverandi ríkisstjórn ætlaði að gera eitthvað fyrir heimilin en horfir nú upp á að planið var allan tímann að troða fleiri stoðum undir þá vel stæðu. Það kemur ekki frá þeim sem héldu að eftir hrunið kæmu ný lög sem settu viðskiptaheiminum reglur um að haga sér skikkanlega, annars yrði þeim troðið í rasphúsið. Nei, það kemur frá skrifstofumanninum sem talar fyrir hönd þeirra allra – talsmanni alþýðu Íslands – Formanninum sjálfum: Best að gera þetta bara í góðu svo allir geti knúsast á eftir. 

„Svo tilkostnaður renni ekki út í verðlagið.“ Hvernig verður að hitta viðsemjendurna næst með þessa athugasemd í farteskinu? Gylfi gerir hreinlega ráð fyrir því að kostnaður við aðgerðir renni út í verðlagið! Hann hefur þar með afsalað sér eina takinu sem hann hefur á viðsemjendurna – hreðjatakinu. Dömur mínar og herrar, það er því miður ómögulegt að grípa til verkfallsaðgerða, því það mundi bara „renna út í verðlagið“. Því munum við bara héðan í frá biðja fallega og vona að herrar vorir séu í gjafmildu skapi þann daginn. Maður má nú verða pínulítið hissa yfir þessu, er það ekki?

Svo kemur upp úr dúrnum að Alþýðusambandið ætlar að vona það besta með verðbólgu og svoleiðis og byrja að semja við sömu aðila þegar í stað á næsta ári, en gera langtímasamning í það skiptið. Manni dettur eiginlega í hug strax hvernig stemningin verði á fyrsta fundi þar sem Samtök iðnaðarins hafa gersamlega valtað yfir viðsemjendur sína einungis mánuði fyrr, og fengið ríkisstjórnina með sér í lið. Það verður hnípinn hópur sem mætir fyrir hönd alþýðunnar á þann fund. Hvernig er það, mundi einhver heilvita maður treysta sömu samninganefnd til að koma með hörkunni inn í nýjar viðræður og ná föstum tökum á því sem þeir sjálfir væla undan að vera hörð samninganefnd og vond ríkisstjórn – sem þeir gáfust upp fyrir mánuði áður? Er þeim yfir höfuð við bjargandi? 

Tökum dæmi um veruleikafirringuna: Gylfi segir að „SA og ASÍ ætli sameiginlega að þrýsta á fyrirtæki um að velta kauphækkunum ekki út í verðlagið. “ Hér er eitthvað undarlegt á seyði. Er þetta fugl? Er þetta flugvél? Er þetta þjóðarsátt? Nix. Þetta er ASÍ að vona það besta í góða heiminum þar sem allt fer á allra besta veg og hagsmunaaðilar sjái að sér og hætti að reyna að græða svona mikið. Ég get hins vegar frætt Gylfa á því að þannig ganga kaupin á eyrinni ekki fyrir sig. Fyrirtæki ganga fyrir hinu víðsjálverða lögmáli um framboð og eftirspurn. Sama hvað öllum skammstöfunum finnst um það. Þegar það sýnir sig að fólk sé reiðubúið að borga hærra verð fyrir vöru, er það látið borga hærra verð fyrir vöruna. Það er hægt að fara endalaust í kringum þetta með fagurgala og heimspeki, en þannig, og einungis þannig gerast kaupin á eyrinni. Það er verulega umhugsunarvert að formaður alþýðunnar sé ekki meðvitaður um þetta lögmál.

Svo segir hann „Ef atvinnulífið mætir þessari tilraun með því að velta öllu út í verðlagið áfram, þá er alveg ljóst að tilraunin mistókst. Að vopnahléið varð ekki til þess að tryggja frið, og þá spái ég því að næsta haust verði mjög mikil læti út af þessu.“ – Þannig að þá ætlar hann að koma með þanið brjóstið og segja „I told you so!“ Þetta kallast ósköp einfaldlega að hafa kökuna og éta hana. Sem sagt – ef tilraun hans til að umturna lögmálinu um framboð og eftirspurn á markaði þar sem verðbólga er hæst í heiminum og ríkisstjórnin er búin að lofa að fella niður skuldir almennings upp á yfir 25% af tekjum ríkisins það árið, þá verður allt vitlaust og hann kemur og reddar málunum og semur upp á nýtt (eða eitthvað). Fyrirgefðu, en er einhver leið að toppa hræsnina í þessu?

En sjá, það mun verða öxluð ábyrgð. Forystumönnum er hvorki meira né minna en gróflega misboðið þegar minnst er á annað: „Ég verð að viðurkenna að  mér er gróflega misboðið, ekki bara framganga þessara félaga minna heldur ekki síður hvernig fjölmiðlar hafa hampað þessum aðilum án þess að leita eftir skoðunum forystumanna þeirra 95% félagsmanna sem ákváðu að axla fulla ábyrgð á stöðumatinu með undirritun kjarasamninganna.“  – En í hverju felst sú ábyrgð? Að koma fram og segja I told you so og halda áfram í samningaviðræðunum eins og ekkert hafi í skorist? Eða kannski að segja af sér og fela öðrum hæfari að sjá um að halda áfram þessum mikilvægu viðræðum sem snertir nánast hvert einasta heimili landsins? Ég held að svar Gylfa sé nokkuð augljóst – alla vega er hann sáttur við kjarasamningana og vísar gagnrýni á bug, ef marka má visir.is.  Það skyldi þó aldrei vera að planið hafi allan tíman verið að semja af sér til að geta sagst hafa haft rétt fyrir sér? Getur það verið? Að koma eins og bjargvættur á hvítum hesti að forða almenningi frá samningi sem hann sjálfur gerði? Nei – það væri bara einum of heimskulegt… jafnvel fyrir þessa vösku sveit samningamanna. En eftir situr spurningin um hvernig þetta hefðarfólk ætli að axla ábyrgð. Það skyldi þó ekki vera með því að gera akkúrat ekki nokkurn skapaðan hlut, eins og hefð hefur skapast fyrir í stjórnmálum hér á landi?

Nú spyr maður sig óneitanlega hvar hinir alvöru hetjur alþýðunnar eru staddir. Hvar eru prinsippmennirnir sem eru ekki að pæla í því hvort mótaðilarnir séu óþægilegir í samskiptum, eða ríkisstjórnin hægri eða vinstri eða upp eða niður, heldur halda sína leið með hagsmuni þeirrar alþýðu Íslands að leiðarljósi sem byggði þetta land frá rústum til þess eins að láta misvitra stjórnmálamenn og bankaaula rústa því fyrir sér í skjóli leyndarhyggju og baktjaldamakks? Hvar eru þeir sem berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og standa vörð um réttindi þeirra, eins og stendur svo fínt á heimasíðu ASÍ? Það stendur nefnilega „berjast“ og „standa vörð“, ekki væla og barma sér og troða svo í sig vöfflum. Hvar er þetta fólk? Eru allir bara komnir í kósí fílíng í jólastemningu með Visakortið á lofti? Eru þeir að safna spiki á bak við Mahoniskrifborð í  góðri heildverslun með gjafakort og blóm og kransa? Er búið að búa til úr þeim þæga embættismenn sem þiggja laun fyrir aðvera þægilegir viðsemjendur á fundum með fulltrúum gamla fjármagnsins og nýja? Er þessi þjóð dauð úr öllum æðum? Hvar eru allir?

Hjálp!

Þessi grein er tekin af dv.is og er eftir Daða Ingólfsson.

Deila á