Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út -fátækt fest í sessi-

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Karphúsinu um helgina þegar Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands skrifuðu undir kjarasamning til 12 mánaða. Haft var eftir forseta ASÍ að tekist hefði að hækka laun lágtekjufólks sérstaklega með láglaunaaðgerð og því bæri að fagna. 

Reyndar náðist sá einstaki árangur eftir áratuga langa „baráttu“ að hækka lægstu taxtana í rúmlega 200 þúsund kr. á mánuði. Slíkur árangur kallar á veglega flugeldasýningu um áramótin. 

Hver er niðurstaðan:

Verkamaður með kr. 191.752 í mánaðarlaun hækkar um kr. 9.565,- frá og með 1. janúar 2014, enda verði kjarasamningurinn samþykktur. Ríkisstjórnin og hennar stuðningsmenn á Alþingi sáu ekki ástæðu til að hækka persónuafsláttinn hjá þessum tugþúsundum einstaklinga. Þeir greiða því sambærilega skatta og áður enda eru þetta breiðu bökin að þeirra mati. (Hafið skömm fyrir alþingismenn og reyndar ASÍ líka.) 

Næstu dæmi taka mið af tekjublaði Frjálsrar verslunar:

Forseti ASÍ og aðrir þeir sem eru með sambærilegar tekjur kr. 1.200.000 á mánuði fá 2,8% launahækkun eða kr. 33.600,- í hækkun á mánuði. Þeir fá líka góðar skattalækkanir í desert frá stjórnvöldum sem samþykktar voru á Alþingi um helgina. Það er full ástæða fyrir þennan hóp að kaupa sér auka flugelda um áramótin, ( þeir hafa vissulega efni á því) og skála fyrir góðum samningum, enda dansa þeir áfram í kringum gullkálfinn. 

Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sem eru með um kr. 3.000.000 í meðallaun á mánuði fá um kr. 84.000,- hækkun. Þeir fá líka ríkulegan desert, það er skattalækkanir frá stjórnvöldum. Þeir geta keypt sér flottari flugelda og tertur en þeir sem fengu aðeins kr. 33.600 í launahækkun á mánuði.  Það er full ástæða fyrir þennan hóp að gleðjast innilega, þar sem þeir sem fengu aðeins kr. 9.565 í hækkun hafa ekki ráð á að kaupa sér flugelda og munu því ekki þvælast fyrir þeim á sölustöðum.  Að sjálfsögðu sjá forsvarsmenn SA um að lýsa upp himininn fyrir þennan hóp á gamlárskvöld, þeim er eins og við vitum umhugað um láglaunastéttir þessa lands. Jólin eru jú hátíð ljóss og friðar. 

Að öllu gamni slepptu. Ég skal fúslega viðurkenna að ég fæ æluna upp í kok þegar ég sé þessa sömu menn fagna góðum árangri og dásama hvað þeim tókst vel til varðandi hækkun lægstu launa. Samkvæmt tekjublaði Frjálsrar verslunar eru forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins með allt að 9,3  milljónir í mánaðarlaun. Væntanlega verður góður afgangur eftir kjarasamningana til að gera áfram vel við þá, þeir eiga jú skilið góða jólabónusa eftir að hafa blekkt verkalýðshreyfinguna til að skrifa undir kjarasamninginn. 

Niðurstaða:

Verkamaðurinn: Hækkun kr. 9.565,- á mánuði/ ekki skattalækkanir í boði.

Forseti ASÍ og félagar: Hækkun kr. 33.600,- á mánuði + góðar skattalækkanir.

Forsvarsmenn SA: Hækkun kr. 84.000,- á mánuði + góðar skattalækkanir. 

Hvernig geta forsvarsmenn ASÍ og SA talað um kjarasamning sem byggi á því að hækka lægstu laun sérstaklega. Ég skil það ekki, þess vegna neitaði ég fyrir hönd Framsýnar, stéttarfélags að skrifa undir kjarasamninginn. Jafnframt vara ég eindregið við málflutningi forsvarsmanna ASÍ og SA. Það eru blekkingar að halda því fram að verkafólk  komi vel út úr þessum samningum svo ekki sé talað um útspil ríkisstjórnarinnar í skattamálum þar sem enginn áhugi var fyrir því að lækka skattana hjá þeim tekjulægstu. Staðreyndirnar hér að framan tala sínu máli.

Þessir formenn auk mín skrifuðu ekki undir kjarasamninginn, hafið þakkir fyrir: 

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness
Arnar Hjaltalín formaður Drífanda í Vestmannaeyjum
Magnús Már Jakobsson  formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Halldóra Sveinsdóttir  formaður Bárunnar á Selfossi 

Félagsmenn þessara félaga geta verið stoltir af sínum formönnum. Þeir sáu ekki ástæðu til að skrifa undir eða fá sér vöfflu eftir undirskriftina í boði ríkissáttasemjara, það er með þeim sem samþykktu þennan gjörning. Verði þeim að góðu. Reyndar er það þannig að þessi „hækkun“ sem verkafólk fær samkvæmt samningnum á mánuði dugar varla fyrir kaffi og vöfflu á veitingastað. Hugsanlega var það því klaufaskapur að þiggja ekki vöfflu með rjóma hjá ríkissáttasemjara, svona rétt fyrir jólin. 

Ástæðan fyrir því að ég skrifaði ekki undir :

Það er með ólíkindum að menn geti ekki staðið saman um það að lyfta lægstu launum upp í það sem teldist mannsæmandi  í stað þess að skrifa undir kjarasamning sem viðheldur fátækt á Íslandi. 

Í öðru lagi er ólíðandi að stjórnvöld með stuðningi frá ASÍ hafi ekki séð ástæðu til að hækka persónuafsláttinn, þannig að þeir lægst launuðu fengju lækkun á tekjuskatti eins og aðrir launþegar þessa lands. Þess í stað fá þeir tekjuhærri aðeins skattalækkanir og meiri eftir því sem launin eru hærri. 

Í þriðja lagi eru engin skuldbindandi loforð frá stjórnvöldum og sveitarfélögum um að gjaldskrár hækki ekki eða verði færðar niður til lækkunar. 

Í fjórða lagi eru verðbólgumarkmið samningsins út í hött þannig að framundan er frekari kaupmáttarrýrnun. 

Það eru mikil vonbrigði að samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands skyldi klofna í afstöðu til innihalds samningsins. Ekki síst eftir gott þing sambandsins í október sl. þar sem samþykkt var harðorð kjaramálaályktun. Þar voru setningar eins og: 

„Barist verður af alefli fyrir því að lagfæra kjör verkafólks svo um munar í komandi kjarasamningum!“ 

 „Þing Starfsgreinasambandsins fordæmir skattabreytingar sem færa tekjuhæstu hópum samfélagsins umtalsverða skattalækkun á meðan skattbyrði láglaunahópa helst óbreytt og krefst þess að því svigrúmi sem er til skattalækkana verði ráðstafað til þeirra sem minnst hafa milli handanna.“ 

Því miður fyrir verkafólk var ekki staðið við þessar samþykktir, það staðfestir nýgerður kjarasamningur. Var  barist af alefli fyrir því að lagfæra laun lágtekjufólks? NEI. Náðist að tryggja lágtekjufólki skattalækkanir? NEI. Hvað stendur þá eftir af ályktun Starfsgreinasambands Íslands frá síðasta þingi? EKKERT. 

Þá kenni ég í brjósti um þá þingmenn sem ég taldi að hefðu skilning á málefnum verkafólks, að þeir skyldu samþykkja skattkerfisbreytingar sem skilja þá verst settu eftir er óskiljanlegt. Hafið skömm fyrir. 

Ps. Það er einnig hollt fyrir fólk að lesa meðfylgjandi færslu hjá Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness sem ásamt formanni Framsýnar og nokkrum öðrum formönnum neituðu að skrifa undir kjarasamninginn. 

Aðalsteinn Á. Baldursson
Formaður Framsýnar stéttarfélags

(Mynd í upphafi fréttar mbl.is/Golli)

Rólegir stákar, það er nóg til af vöfflum og rjóma handa okkur!!
(mynd: visir.is, Jón Júlíus Karlsson)

Grein Vilhjálms Birgissonar:

Sorgmæddur og reiður
Ég er svo sorgmæddur og reiður fyrir hönd íslensks verkafólks að það nær engu tali. Mér sýnist að íslensk verkalýðshreyfing sé endanlega að deyja drottni sínum vegna kjarkleysis og aumingjadóms.

En af hverju er ég svona reiður og sorgmæddur? Í fyrsta lagi fórum við fram með kröfu um að lágmarkstaxtar verkafólks myndu hækka um 20.000 kr. sem hefði þýtt að lægsti taxti hefði farið úr 191.000 kr. í 211.000 kr. Þetta fannst mér meira segja afar hógvær krafa. Þessi samningur sem núna er verið að undirrita þýðir að lágmarkstaxtinn fer einungis uppí 201.000 kr. og hækkar því um 9.750 kr.

Í örðu lagi þá er ekki gert ráð fyrir að lágtekjufólk með tekjur undir 250.000 kr. fái neinar skattalækkanir en á sama tíma á hátekjufólk með t.d. 1 milljón eða meira að fá skattalækkun á ársgrundvelli í kringum 42 þúsund!

Í þriðja lagi þá er ASÍ og Samtök atvinnulífsins búin að skuldbinda alla þá sérkjarasamninga sem aðildarfélög ASÍ eiga eftir að gera til að hlíta sömu launahækkunum sem verið er að semja um núna. Þetta þýðir t.d. að allir stóriðjusamningarnir og fiskmjölssamningar sem á eftir að gera eru bundnir af þessum skammarlega samningi.

Skoðum aðeins hvað þýðir þessi samningur t.d. fyrir fiskvinnslukonu sem hefur starfað í 30 ár í greininni. Jú, hún fær 9.750 kr. hækkun á mánuði sem gerir í vasann í kringum 5.700 kr. Þessi fiskvinnslukona nær ekki 250.000 kr. í heildarlaun á mánuði og fær því enga skattalækkun. Þessi kona fær því í vasann á heilu ári heilar 68.000 kr.

Skoðum hvað maður sem er með 1,2 milljón í laun fær úr þessum samningi en það eru t.d. laun forseta ASÍ. Þessi einstaklingur hækkar um 2,8% sem þýðir 33.600 króna hækkun á mánuði og þessi einstaklingur fær líka skattalækkun uppá ca. 3.500 kr. á mánuði eða sem nemur 42.000 kr. á ári. Að frádregnum sköttum þá skilar þetta í vasann 23.000 kr. á mánuði. Takið eftir lágtekjufólkið fær 5.600 í vasann!

Skoðum hvað maður sem er með 2,2 milljón í laun fær úr þessum samningi en það eru launakjör sem eru nærri lagi þeim sem framkvæmdastjóri SA er með. Þessi einstaklingur hækkar um 61.600 kr.á mánuði og þessi einstaklingur fær líka skattalækkun uppá ca. 3.500 kr. á mánuði eða sem nemur 42.000 kr. á ári. Að frádregnum sköttum þá skilar þetta í vasann um 40.000 kr. á mánuði. Takið aftur eftir, lágtekjufólkið fær 5.600 kr. í vasann.

Hátekjufólkið er að fá bara í skattlækkun 42.000 kr. á ári á meðan lágtekjufólkið fær enga skattalækkun en launahækkunin skilar litlu meira en skattalækkun hátekjufólksins eða 68.000 kr.

Þið verðið að fyrirgefa mér en óréttlætið og misskipting er allsráðandi og ég fer ekki ofan af því að íslensk verkalýðshreyfing hefur brugðist þessu fólki illilega og er því nánast að deyja drottni sínum. Því segi ég blóm og kransar eru af þakkaðir en þeir sem vilja minnast verkalýðshreyfingarinnar er bent á að styrkja lágmarkstaxta verkafólks!

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness

 

Deila á