Mótmæla skattatillögum ríkisstjórnarinnar.

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar stéttarfélags hafnar leið ríkistjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands í breytingum á tekjuskatti sem miða að því skilja lágtekjufólk eftir með óbreytta skatta af sínum tekjum. Þess í stað leggur Framsýn til að persónuafslátturinn verði hækkaður öllum til góða.

Ályktun
Um breytingar á tekjuskatti 

„Framsýn stéttarfélag hafnar tillögum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að lækka skatta hjá þeim tekjuhærri, á meðan þeim sem eru með innan við 250.000 kr. á mánuði er ætlað að greiða áfram óbreytta skatta af sínum tekjum. 

Þá vekur athygli að Alþýðusamband Íslands, sem gert hefur athugasemdir við tillögur ríkisstjórnarinnar, telur ekki ástæðu til að leggja til breytingar á tekjuskatti þannig að skattar á lágtekjufólki verði lækkaðir. Sama viðhorf virðist ríkja hjá ASÍ og hjá ríkisstjórn Íslands, ekki sé þörf á lækkun skatta hjá þeim sem tekjulega skrapa botninn á íslenskum vinnumarkaði. 

Framsýn, stéttarfélag krefst þess að svigrúm til skattalækkana verði notað til að hækka persónuafsláttinn öllum til góða, ekki síst þeim fjölmenna hópi sem starfar eftir launatöflu Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins. Þar liggja kauptaxtar verkafólks á bilinu kr. 192.000,- til kr. 228.000,-. Innan sambandsins eru um 50.000 félagsmenn. 

Framsýn, stéttarfélag hvetur verkafólk til að rísa upp og fylgjast með umræðunni. Látum þetta ekki yfir okkur ganga.“

 

Deila á