Komu hraktir og blautir í hús

Þeir lögðu mikið á sig, Stefán og Ari, sem sitja í samninganefnd starfsmanna Loðnubræðslunnar á Þórshöfn.  Í gær var boðað til samningafundar um sérmál starfsmanna Loðnubræðslunnar í húsnæði Ríkissáttasemjara í Reykjavík. Þeir börðust um morguninn frá Þórshöfn til Húsavíkur í leiðinda veðri, þaðan sem þeir ætluðu sér að fljúga en vegna veðurs var ekki flogið. Þá tóku þeir sig til og keyrðu áfram til Akureyrar til að komast í flug. Þeir komust ekki þangað áfallalaust þar sem fjöldi bíla satt fastur á Víkurskarðinu. Þar sem Ari og Stefán eru miklir herramenn fóru þeir og hjálpuðu ökumönnum að komast yfir skarðið með því að fara út og ýta þeim áfram í slæmu veðri. Á endanum tókst þeim sjálfum að komast yfir auk þess að snúa til baka ferðamönnum sem ætluðu yfir skarðið á illa útbúnum bílum. Þeir gerðu því mörg góðverk á Víkurskarðinu. Þegar til Akureyrar kom máttu þeir afklæðast til að þurrka af sér fötin sem voru rennandi blaut eftir hremmingarnar á Víkurskarðinu enda höfðu þeir ekki föt til skiptanna. Á endanum komust þeir í flug til Reykjavíkur þar sem þeir settust loksins niður með Arnari Sigurmundssyni frá Samtökum atvinnulífsins sem tók við kröfum starfsmanna um breytingar á gildandi sérkjarasamningi Verkalýðsfélags Þórshafnar og Samtaka atvinnulífsins fyrir bræðslumenn á Þórshöfn. Eftir samningafundinn flugu þeir svo aftur norður um kvöldið til Akureyrar og væntanlega hafa þeir verið komnir til Þórshafnar þegar vel var liðið á nóttina enda veðrið að mestu gengið niður. Það er ekki hægt að segja annað en að menn leggi töluvert á sig til að berjast fyrir bættum kjörum sinna umbjóðenda.

Stefán Benjamínsson og Ari Sigfús Úlfsson komnir í hús blautir og hraktir eftir margra klukkutíma ferðalag. Hér eru þeir að kynna kröfur starfsmanna loðnubræðslunnar á Þórshöfn fyrir talsmanni Samtaka atvinnulífsins hjá Ríkissáttasemjara í gær.

Deila á