Aðalsteinn gestur Fisktækniskóla Íslands

Formanni Framsýnar var í vikunni boðið í heimsókn í Fisktækniskóla Íslands í Grindavík. Hann fékk kynningu á starfsemi skólans auk þess að taka þátt í starfshóp/rýnihóp um starfsemi skólans sem býður upp á áhugavert nám. Sjá frekari uppfjöllun um skólann. 

Fisktækniskóli Íslands býður upp á fjölbreytt nám í sjávarútvegi á framhaldsskólastigi. Námið er hagnýtt tveggja ára nám sem er byggt upp sem önnur hver önn í skóla og hin á vinnustað.

Nemendur geta valið sér námsleiðir í sjómennsku, fiskvinnslu og fiskeldi. Verkefni og vinnustaðir eru valdir með hliðsjón af áhuga hvers og eins. 

Fiskvinnslulína: Nemendur læra um meðferð fisks, gæðakerfi, um vélar (td. Baader, Marel) og tæki og búnað sem notaður er til að hámarka gæði og verðmæti fisks. Námið gefur möguleika á fjölbreyttum atvinnutækifærum í vaxandi sjávarútvegi. 

Sjómennskulína: Nemendur læra m.a. vélavörslu, aflameðferð, veiðitækni, sjóvinnu og rekstur. Námið er tilvalið fyrir þá sem stefna á strandveiði eða huga að öðrum störfum á sjó. 

Fiskeldislína: Nemendur sérhæfa sig til almennra starfa í fiskeldi eða búa sig undir frekara nám hérlendis eða við samstarfsskóla okkar m.a., í Noregi. 

Spennandi blanda bóklegs og verklegs náms.

Hver námsbraut tekur fjórar annir. Vinnustaðanám fer fram á annarri og fjórðu önn og er um 14 vikur hvor. Tvær fyrstu annir námsins eru sameiginlegar öllum brautunum þremur.  Nám á fyrstu önn fer fram í skóla en á annarri önn, á vinnustað.  Á þriðju önn eykst sérhæfing og á fjórðu önn stunda nemendur nám á vinnustað í samræmi við framtíðaráform sín um starfsvettvang; í vinnslu, til sjós eða í fiskeldi. 

Netagerðin er þriggja ára samningsbundið nám og tvær annir í skóla.  Samningstíma og námi í skóla þarf að ljúka áður en farið er í sveinspróf. Þá er farið síðar í meistaranám til að öðlast meistararéttindi í greininni.  Einnig er  hægt að fara í viðbótarnám sem veitir réttindi til að hefja háskólanám. 

Nám í skólanum veitir einnig réttindi til frekara náms í öðrum skólum. 

Greinar þær sem flokkast undir að vera almennar og á að taka í Sjómennsku, Fiskvinnslu, og fiskeldi eru: Enska, Íslenska, Stærðfræði, Námstækni og Veiðar, vinnsla og fiskeldi í samfélaginu. 

Allar brautir eiga að skila eins eininga námi eða samsvarandi framlagi í íþróttum eða heilbrigðismálum.

 Fisktækniskóli Íslands býður upp á áhugavert nám fyrir nemendur sem hafa áhuga á því að starfa í sjávarútvegi. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Á. Baldursson, var gestur skólans fyrir helgina.

Deila á