Kennitöluflakk kostar íslenskt samfélag tugi milljarða á ári

Alþýðusamband Íslands hefur lengi gagnrýnt andvaraleysi og ótrúlegt langlundargeð stjórnvalda gagnvart kennitöluflakki og þeim skaða sem slík starfsemi veldur.  ASÍ gerir tillögur í 16 liðum um aðgerðir til að sporna við kennitöluflakki. Með því vill ASÍ taka frumkvæði og setja á dagskrá baráttuna gegn þessum skaðvaldi í íslensku atvinnulífi. Jafnframt bendir ASÍ á að kennitöluflakk og svört atvinnustarfsemi þrífast gjarnan hlið við hlið.
Í sinni einföldustu mynd má lýsa kennitöluflakki sem skipulagðri aðgerð einstaklinga þar sem verðmæti eru tekin út úr einu félagi (hf./ehf.) og sett í annað félag en skuldir og aðrar skuldbindingar skildar eftir og félagið síðan sett í þrot. Mörg dæmi eru um keðju slíkra gjörninga vegna sama rekstursins þar sem sömu einstaklingar eru í forsvari. Fullyrða má að þetta athæfi kosti íslenskt samfélag tugi  milljarða króna á ári.
Samfélagslegt tjón
Kennitöluflakk og misnotkun á félögum (hf./ehf.) með takmarkaða ábyrgð hefur alvarleg og víðtæk áhrif fyrir samfélagið allt, atvinnulífið og launafólk og veldur þannig miklu samfélagslegu tjóni fyrir:

• Starfsmenn sem eiga útistandandi launakröfur á hin gjaldþrota félög auk þess að tapa starfi sínu og margvíslegum réttindum.
• Fyrirtæki í hliðstæðum rekstri, og starfsmenn þeirra, sem standa skil á sínu en búa við skekkta samkeppnisstöðu vegna þeirra sem hafa rangt við. 
• Birgja sem fá ekki greidda sína vöru og þjónustu og geta vegna ruðningsáhrifa slíks tjóns, sjálfir orðið gjaldþrota.
• Sameiginlega sjóði landsmanna sem verða af tekjum sem skipta a.m.k. tugum milljarða á hverju ári. Tekjum sem nýta mætti til að bæta heilbrigðis-, velferðar- og menntakerfi svo dæmi séu tekin.

Árið 2012 voru á Íslandi skráð 31 þúsund fyrirtæki með takmarkaða ábyrgð og fer þeim fjölgandi. Takmörkuð ábyrgð vísar til þess að sá/þeir sem að félaginu standa taka ekki á sig aðra skuldbindingu en þá að greiða tiltekna fjárhæð við stofnun félagsins. Að öðru leyti eru þær skuldbindingar sem gerðar eru í nafni félagsins á ábyrgð þess, ekki eigendanna. Dæmi eru um að einn og sami einstaklingurinn hafi farið með 29 félög í gjaldþrot á sjö ára tímabili.
Samkvæmt gögnum Creditinfo skiluðu einungis 22% félaga ársreikningi á réttum tíma árið 2011. Mikil fylgni er á milli þess að skila ekki ársreikningi og að vera í vanskilum því 72% þeirra fyrirtækja, sem ekki hafa skilað ársreikningi 2011, eru á vanskilaskrá.
Aðgerða er þörf
Á grunni víðtækrar upplýsingasöfnunar og greiningar á kennitöluflakki og skaðlegum afleiðingum þess kynnir Alþýðusamband Íslands tillögur til úrbóta í 16 liðum, þar á meðal þessar:

• Strangari reglur um hæfi einstaklinga til að vera í forsvari fyrir félög með takmarkaða ábyrgð, m.a. að „síbrotamenn“ missi hæfi til að stofna eða að vera í forsvari fyrir félag með takmarkaða ábyrgð í tiltekinn tíma.
• Sátt  vegna skattalagabrota leiðir til missis hæfis á sama hátt og dómur fyrir refsiverðan verknað gerir nú.
• Krafa um aukið hlutafé við stofnun félags með takmarkaða ábyrgð og tryggt að það sé greitt.
• Skilyrði sett að þeir sem eru í forsvari fyrir félag með takmarkaða ábyrgð hafi sótt viðurkennt námskeið um rekstur slíkra félaga.
• Heimild fengin til að sekta forsvarsmenn félaga sem standa ekki skil á ársreikningi.
• Komið verði upp miðlægri rafrænni skráningu á eignarhaldi í félögum.
• Takmörk verði sett á nafnabreytingar félaga með takmarkaða ábyrgð.
• Girt verði fyrir heimildir aðila sem eru tengdir félögum með takmarkaða ábyrgð til að taka fé út úr félaginu með lánum eða öðrum hætti.
• Settar verði viðmiðunarreglur um hvenær „meintar“ skuldbindingar vegna félaga með takmarkað ábyrgð flytjast yfir á forsvarsmennina.
• Heimild til að framkvæma slit á „óvirkum“ félögum verði flutt og fylgt eftir af festu. Opinberir aðilar marki sér heildstæða stefnu um aðkomu sína sem kröfuhafi að þrotabúum félaga með takmarkaða ábyrgð. (heimild asi.is)

Hér má sjá skýrslu ASÍ um kennitöluflakk.

Deila á