Um gildi hollrar hreyfingar þarf ekki að efast lengur. Hreyfing og þolþjálfun í ca. 30 mín. 4-6 sinnum í viku hefur geysilegt forvarnargildi gagnvart flestum líkamlegum kvillum og sjúkdómum. Hreyfing styður ónæmiskerfið þannig að við verðum ekki eins útsett fyrir pestum og innflúensum. Áhrif hreyfingar á stoðkerfið eru mjög jákvæðar, hún styrkir bein og vöðva, hjálpar við þyngdarstjórnun og dregur úr verkjum. Jafnframt hefur verið sýnt fram á að hreyfing sem þessi hefur forvarnar- og meðferðargildi gagnvart geðrænum sjúkdómum s.s. kvíða og þunglyndi. Áhrif hreyfingar er í mörgum tilfellum að skila jafngóðum eða betri árangri en lyfjameðferð, m.a. þess vegna fá einstaklingar þá ráðgjöf hjá læknum og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum að stunda meiri hreyfingu.
Fyrir marga er ekki svo þægilegt að gera þær lífsstílsbreytingar að auka hreyfinguna og setja hana á reglulega rútínu. Í þessu sambandi verðum hver og einn að taka ábyrgð á sinni heilsu og hreyfingu. Í huga margra er hreyfing og þolþjálfun það sama og 2 klst. stífar æfingar í keppnisíþróttum eða heilsurækt, en svo er alls ekki. Þegar talað er um hreyfingu og þolþjálfun er þessi atriði góð og gild en það eru fullt að öðrum aðferðum sem eru alveg eins góðar, t.d. ákveðin ganga á hraða hvers og eins, sund, hjólreiðar, útihlaup, útileikur, skíði, hópíþróttir, einstaklings og heimaæfingar.
Vegna þessa mikilvæga forvarnar- og meðferðargildis hreyfingar hefur orðið mikil viðhorfs og atferlisbreyting út um allan heim. Fólk tekur frá tíma í reglulega hreyfingu og vílar ekki fyrir sér að allskyns nýjar aðferðir. Sannkallað hlaupaæði hefur gripið Íslendina líkt og aðra og í Þingeyjarsýslum hafa víða sprottið fram hópar að fólki sem skokkar reglulega til heilsubótar. Markmiðin eru hófleg til að byrja með en flestir sjá góðan árangur og setja sér sífellt fleiri og stærri markmið.
Fréttamaður heimasíðunnar hefur fylgst með einum svona hópi, Hlaupahópnum Skokka. Fjórir dugnaðarforkar í hlaupahópnum hafa síðustu misserin aukið æfingar sínar og stefna að þátttöku í Berlínarmaraþoninu sem fram fer í samnefndri borg sunnudaginn 29. september n.k.. Fréttamaðurinn hefur þefað það upp að s.l. 16 vikur hafi hver þeirra lagt að baki um 1.000 km. í æfingar. Hann getur líkt og aðrir Þingeyingar staðfest að vart hefur verið þverfótað fyrir þeim s.l. vikur, sama hvort farið er í göngutúr, berjamó út fyrir Húsavík, í kraftgöngu upp á Húsavíkurfjall eða rómantíska bílferð til að skoða sólarlagið á Tjörnesinu. Elja þeirra hefur orðið fréttamanni og öðrum góð hvatning til auknar hreyfingar eða í minnsta lagi holl áminning um gildi hennar.
Heimasíða stéttarfélaganna óskar köppunum, Jóni Friðriki Einarssyni, Þóri Aðalsteinssyni, Guðmundi Ólafssyni og ekki síst samstarfsmanni okkar á skrifstofu Framsýnar Ágústi Óskarssyni, góðs gengis í Berlín.
Samstarfsmenn óska Gústa velfarnaðar í Berlínarmaraþoninu. Ekkert annað en sigur kemur til greina.