Árlegur formannafundur LÍV (Landssamband íslenskra verzlunarmanna) var haldinn í Reykjavík á dögunum. Fundinn sóttu formaður og varaformaður Deildar verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar, Jóna Matt og Jónína Hermanns. Kynntar voru niðurstöður kjarakönnunar LíV og VR. Þar kom fram að áhersla væri á aukinn kaupmátt og beinar launahækkanir og frá LÍV félögum var auk þess áhersla á sérstaka hækkun lægstu launa. Fleiri eru hlynntir þjóðarsátt en andvígir og að mati félagsmanna eru aðgerðir til að draga út skuldavanda heimilanna og skattamálin mikilvæg málefni. Ólafur Darri Andrason deildarstjóri hagdeildar ASÍ fór yfir helstu atriði sem skipta máli í aðdraganda kjarasamninga. Í fyrra var 1,6% hagvöxur og spáin er svipuð 2013-14. Illa gengur að koma fjárfestingum í gang. Einkaneysla jókst frá 2012 og lítur út fyrir vöxt á næsta ári. Þar er samdráttur í samneyslu frá 2012, lítill vöxtur en gæti aukist til 2015. Fjárfestingar þurfa að aukast og þörf er á 150 milljörðum í aukafjárfestingar til þess að geta haldið fjárfestingargetu. Ólafur Darri fór yfir launaþróun starfsmanna sveitarfélaga, ríkisstarfsmanna og á almenna markaðinum. Í grófum dráttum virðist áherslan á lægri laun vera að skila sér og launaþróun hjá konum verið hröð sem kom ánægjulega á óvart. Hann lýsti því einnig að laun hafi hækkað um tæp 20% á samningstímabilinu og að almennar hækkanir hafi ekki haldið í við verðlag. Ólafur Darri benti á varðandi komandi kjarasamningsviðræður að þróun gengisins, gjaldeyrishöftin og launahækkanir á Landsspítalanum væru óvissuþættir sem hefðu áhrif á þróun mála. Þá er vert að benda á að nýjar reglur Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks munu taka gildi 1. janúar nk., þær helstu eru að hámarks styrkur verður kr. 90.000 í stað kr. 60.000 og því mun 3já ára reglan veita styrk allt að kr. 270.000. Þá mun ferðastyrkur koma aftur inn. Eldri reglur munu gilda í tvö ár samhliða nýjum reglum. Fulltrúar Framsýnar bentu á hugmyndir okkar um fleytisamninga, þar sem ekki hefur komið fram frá ríkisstjórninni hvað hún hyggst gera í efnahagsmálum. Almennt voru menn á því að tíminn framundan væri nýttur í samningaviðræður og samstarf við önnur félög og sambönd innan ASÍ er mikilvægt. Þing LÍV verður haldið á Akureyri í nóvember, Deild verslunar- og skrifstofufólks innan Framsýnar hefur rétt á setu eins þingfulltrúa.