Framsýn fordæmir yfirlýsingar FFSÍ og VM

Vegna yfirlýsingar Farmanna og fiskimannasambandsins og Félags vélstjóra og málmtæknimanna í fjölmiðlum fimmtudaginn 15. ágúst 2013 um samkomulag Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins um kjör starfsfólks við hvalaskoðun telur Framsýn rétt að senda frá sér svohljóðandi tilkynningu.

„Framsýn- stéttarfélag vísar þeim ásökunum Farmanna og fiskimannasambandsins og Félags vélstjóra og málmtæknimanna sem fram komu í yfirlýsingu frá samtökunum beint til föðurhúsanna. Yfirlýsingin varðar samkomulag sem Framsýn gerði við Samtök atvinnulífsins um kjör starfsmanna við hvalaskoðun. Slíkt samkomulag hefur ekki verið gert áður á Íslandi og markar því tímamót.

Eins og fram kemur í yfirlýsingunni hefur ekkert gengið hjá FFSÍ og VM að ná fram kjarasamningi fyrir sína félagsmenn er starfa við hvalaskoðun. Reyndar á það einnig við um kjarasamning þeirra við LÍÚ varðandi fiskimenn en sá samningur hefur verið laus frá árslokum 2010.   Framsýn skorar því að FFSÍ og VM að klára sína heimavinnu í stað þess að dreifa óhróðri um félaga sína í verkalýðshreyfingunni sem eru að leitast við að tryggja  félagsmönnum öryggi er varðar kjör og réttindi með samkomulagi. Miðað við stöðuna hafa þessi tvö sambönd síst efni á því að gagnrýna störf annarra stéttarfélaga sem náð hafa góðum árangri fyrir sína félagsmenn.

Af hverju FFSÍ og VM velja að fara rangt með innihald samkomulagsins og grundvallarkjör er óskiljanlegt með öllu. Til að fyrirbyggja misskilning er fulltrúum þessara samtaka velkomið að koma í heimsókn til Húsavíkur og kynna sér samkomulagið. Fram að þessu hafa þeir ekki séð ástæðu til þess að kynna sér málið, heldur hafa þeir valið að túlka það eftir eigin höfði sem er nokkuð sérstakt svo ekki sé meira sagt.

Þá vekur furðu sá mikli hroki sem endurspeglast í yfirlýsingu FFSÍ og VM í garð hvalaskoðunar á Íslandi sem er ört vaxandi atvinnugrein.

Hlutverk stéttarfélaga er samkvæmt lögum að  standa vörð um kjör og velferð félagsmanna. Samningsumboðið er því hjá hverju félagi.  FFSÍ og VM sjá ekki ástæðu til að virða þessi lög þar sem þeir vara við því í yfirlýsingunni að stéttarfélög geti samið heima í héraði, það eigi að heyra sögunni til. Sem betur fer ráða þessi sambönd ekki lýðræðinu í verkalýðshreyfingunni en afstaða þeirra er skýr, lýðræðið skal víkja. Að sjálfsögðu á lýðræðið að vera meðal félagsmanna í viðkomandi stéttarfélögum á hverjum stað, annað kemur ekki til greina.“

Deila á