Innistaða fyrir arðgreiðslum en ekki hærri launum

Sem betur fer hefur árað vel í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum. Þess vegna lagði Framsýn til í síðustu kjarasamningum að fiskvinnslufólk fengi að njóta þess í hærri launum. Fyrir þá sem ekki vita eru byrjunarlaun starfsmanna í fiskvinnslu kr. 198.153 á mánuði. Því miður varð ekki samstaða innan verkalýðshreyfingarinnar um þessa tillögu. Talsmenn fiskvinnslustöðva töluðu einnig gegn henni þar sem þeir töldu fiskvinnsluna ekki bera hærri launakostnað. Síðan kom ríkistjórn Jóhönnu og lagði á veiðileyfagjald á útgerðir landsins svo þjóðarbúið fengi ákveðna þóknun fyrir aðgengi útgerðarmanna að auðlindum þjóðarinnar. Núverandi ríkistjórn endurskoðaði ákvörðunina og lækkaði verulega veiðileyfagjaldið vegna þrýstings útverðarmanna. Nú berast fréttir að því að fyrirtæki í sjávarútvegi fagni þessu sérstaklega með því að greiða sér himin háar arðgreiðslur út úr rekstri fyrirtækjanna. Þau hafa hins vegar ekki efni á því að greiða fólkinu sem skapaði arðinn hærri laun eða þjóðarbúinu sem á auðlindirnar í hafinu eðlilegan arð af aðgengi þeirra að auðlindinni. Svona er Ísland í dag og þetta rugl heldur áfram og áfram. Sjá frétt RÚV um arðgreiðslurnar.   

Hér kemur frétt Rúv um arðgreiðslurnar:

Ekki var einhugur um arðgreiðslur til hluthafa í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum. Tilkynnt var að greiddur yrði 1,1 milljarður króna í arð á framhaldsaðalfundi Vinnslustöðvarinnar í gær.

Á fundinum kom fram að Vinnslustöðin hagnaðist um 2,3 milljarða króna árið 2012. Heildartekjur samstæðunnar voru  15,7 milljarðar króna og jukust um  6 % frá fyrra ári. Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður segir meirihluta hluthafa hafa samþykkt arðgreiðslur, upp á 6,8 milljón evrur eða 1,1 milljarð króna. Þetta jafngildir 13 %  af eigin fé. Ekki hafi verið einhugur um þá ákvörðun og minnihlutinn hafi viljað fara aðra leið.

Í fyrra voru arðgreiðslur 850 milljónir og upphæðin er því 250 milljónum krónum hærri í ár. Fyrirtækið var í fyrra gagnrýnt fyrir að segja upp 41 fastráðnum starfsmanni á sama tíma og það greiddi 850 milljónir í arð. Guðmundur segir stjórnina ekki hafa velt því fyrir sér hvort von sé á svipaðri gagnrýni í ár. “Þessi fjárhæð í ár er hófleg sé miðað við fyrir ár, sem hlutfall af eigið fé. Og miðað við það sem gerist og gengur hjá fyrirtækjum almennt.” 

Spurður um samfélagslega ábyrgð félagsins, sem er stærsti atvinnurekandi í Vestmannaeyjum, segir Guðmundur að hún snúist ekki bara um að reka skip, heldur að gera það með arðbærum hætti.

Í tilkynningu frá Vinnslustöðinni segir að áhrifa veiðigjalda hafi strax gætt á árinu 2012 og þeirra mun gæta að fullu 2013. Útfærsla núverandi ríkisstjórnar á lækkun veiðigjalda valdi vonbrigðum og hafi óveruleg áhrif gagnvart Vinnslustöðinni. Vinnslustöðin greiddi um þrjú hundruð milljónir í veiðigjöld árið 2012 en greiðir  850 milljónir í veiðigjöld í ár.

Hatrammar deilur hafa staðið innan félagsins um tíma. Árið 2011 ákvað hluthafafundur Vinnslustöðvarinnar að sameinast Ufsabergi-útgerð ehf. Stilla útgerð, KG-fiskverkun og Guðmundur Kristjánsson, allt hluthafar í Vinnslustöðinni, sættu sig ekki við þetta og fóru í mál við Vinnslustöðina. Þar var þess krafist að ákvörðun hluthafafundar um samrunann yrði ómerkt. Hæstiréttur Íslands ógilti samrunann í mars á þessu ári. Vegna dóms Hæstaréttar varð að breyta ársreikningum Vinnslustöðvarinnar fyrir árin 2011 og 2012 og voru þeir reikningar afgreiddir á framhaldsaðalfundinum í gær.

Þá hefur Stilla nýverið höfðað skaðabótamál á hendur fyrrverandi stjórnarmönnum Vinnslustöðvarinnar í nafni Vinnslustöðvarinnar. Málið var höfðað á þeim forsendum að 35% hluturinn í Ufsabergi-útgerð sem Vinnslustöðin keypti árið 2008 hafi verið of dýru verði keyptur. Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 19. júní á þessu ári en málsmeðferð er enn ekki lokið.

Þá lagði sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum lögbann við því í júní að eigendur að rúmlega þriðjungshlut í Ufsabergi-útgerð, sem jafnframt á 2,5% í Vinnslustöðinni, nýttu atkvæðisrétt sinn á aðalfundi Vinnslustöðvarinnar. Lögbannið var sett að kröfu Stillu og tengdra aðila. Vinnslustöðin á nú 64% hlut í Ufsabergi-útgerð. 

heiddislilja@ruv.is

Deila á