Þjóðarsátt um hagsmuni ungs fólks

Á félagsfundi hjá Framsýn – stéttarfélagi þann 27. júní var umræða til undirbúnings næstu kjarasamninga. Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum eru lausir 30. nóvember 2013. Nokkru síðar eru kjarasamningar við ríki og sveitarfélög lausir. Á fundinum komu fram ábendingar um mikilvægi þess að launþegar fái tryggingu fyrir meiri stöðugleika í framtíðinni. Síðastliðin ár og jafnvel áratugi hefur mjög vantað upp á stöðugleika í umhverfi heimilanna og tryggingu fyrir því að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki hækki ekki stöðugt verðlag og greiðslur fyrir þjónustu. Í þessu sambandi var m.a. nefndar stöðugar hækkanir gjalda hjá ríki og fasteignagjöld sveitarfélaga.

Á fundinum kom fram áhugi að því að efna til þjóðarsáttar um hagsmuni ungra félagsmanna, en „rekstrarumhverfi“ ungs fólks í námi og þeirra sem eru að koma á vinnumarkað er satt best að segja mjög erfitt. Á þessum tíma er atvinnuleysi nokkuð, laun eru lág en verkefnin í lífinu eru mörg og kostnaðarsöm, t.d. að koma upp heimili og húsnæði, greiða námsgjöld og framfærslu í námi og eignast börn með tilheyrandi kostnaði s.s. vegna leikskólagjalda. Í þessum hópi er m.a. einstæðir foreldrar með eitt eða fleiri börn, þeirra staða er satt að segja mjög þröng. Félagsleg staða þessa hóps er mjög erfið og mikið álag á einstaklingum og börnum. Margar fjölskyldur þurfa að neita sér um lífsnauðsynlega þjónustu fyrir sig og börn sín. Framsýn – stéttarfélag tekur heilshugar undir þessar áhyggjur ungra félagsmanna. Félagið vekur sérstaka athygli á því að gjaldtaka fyrir leikskóla er mjög mikil m.v. önnur skólastig. Almennt gjald fyrir barn í leikskóla er um 400þ. á ári. Þessi kostnaður er verulega íþyngjandi fyrir foreldra ungra barna og útgjöldin koma á krefjandi tímabili hjá fjölskyldunum. Félagið mun óska eftir að aðildarfélög SGS og LÍV beiti sér fyrir þjóðarsátt um hagsmuni ungra félagsmanna, t.d. með því að leikskólagjöld verði felld niður í samningum við ríki og sveitarfélög.

Deila á