Eftirlitsátak í fiskvinnslu

Vinnueftirlitið mun leggja áherslu á eftirlit með fyrirtækjum í fiskvinnslu sumarið og haustið 2013. Er þetta m.a. gert í framhaldi af slysum sem orðið hafa í tengslum við vélbúnað í fiskvinnslu, sem og vegna þess að lesa má úr slysaskrá Vinnueftirlitsins aukningu á slysum almennt í atvinnugreininni. Af þessum sökum hyggst stofnunin fara í eftirlitsátak á landsvísu auk þess sem boðið verður upp á fræðslu í tengslum við átakið.

Aðdragandi átaksins

Samkvæmt slysaskrá Vinnueftirlitsins hefur slysatíðni í atvinnugreininni hækkað á undanförnum árum. Flest slys í fiskvinnslu verða við framleiðslulínur, á ferð um vinnusvæði og við viðhaldsvinnu. Algengustu orsakavaldar eru vinnusvæði, iðnaðarvélar, handverkfæri og vinnuvélar. Algengustu orsakir áverka eru hvass, beittur hlutur, högg og að klemmast/festast í vél. Tilkynningar um útvortis og innvortis blæðingar og tognanir hafa aukist en fjöldi beinbrota er áfram um 20 á ári, svipað og liðna tvo áratugi þrátt fyrir fækkun starfsmanna í greininni. Slysum meðal ungra starfsmanna hefur fjölgað.

Framkvæmd átaksins

Átakið mun standa yfir frá júní til nóvember á yfirstandandi ári flest fyrirtæki í fiskvinnslu verða heimsótt. Fundað verður með yfirstjórnendum og öryggisnefnd eða öryggistrúnaðarmönnum og öryggisvörðum, þar sem verður rætt um vinnuverndarstarf fyrirtækisins, áhættumat þess auk þess sem upplýsingaefni verður afhent. Vinnustaðurinn verður svo skoðaður með tilliti til öryggismála. Ef þörf reynist verða gefin fyrirmæli um úrbætur með tímafresti. Ef aðstæður á vinnustaðnum krefjast þess verður notkun búnaðar, eða vinna bönnuð.

Fræðsla í framhaldi eftirlitsátaksins

Á haustmánuðum verður boðið upp á námskeið tengd átakinu. Um er að ræða almenn vinnuverndarnámskeið sniðin að aðstæðum í fiskvinnslu og námskeið um kælikerfi. Einnig eru í boði önnur námskeið sem fyrirtæki eru hvött til að nýta sér, m.a. um öryggismenningu, vinnuslys, vinnu í lokuðu rými, áhættumat, hávaða/lýsingu og hita/kulda, umhirðu katla, almenn námskeið fyrir öryggistrúnaðarmenn og öryggisverði auk námskeiða fyrir stjórnendur.

Annað

Vinnueftirlitið óskar eftir góðu samstarfi við atvinnurekendur og starfsfólk í fiskvinnslu og hvetur til þess að fyrirtæki leggi áherslu á innra starf, öllum til hagsbóta. Bent er á að atvinnurekendur eiga lögum samkvæmt að veita öryggistrúnaðarmönnum aðgang að gögnum er varða starfsumhverfi og er farið fram á að þeim verði kynnt efni þessa erindis.

Að átakinu loknu verður gefin út skýrsla með heildarniðurstöðum og mun hún verða aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

Deila á