Ný lög um neytendalán

Á síðasta fundi stjórnar og trúnaðarmannaráðs Framsýnar kom fram almenn ánægja með ákvörðun Alþingis að setja lög um neytendalán og var samþykkt að koma þeim skilaboðum á framfæri við almenning.

Ný lög um neytendalán voru samþykkt á Alþingi 18. mars og munu þau taka gildi 1. september nk. Markmið laganna er að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána, auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum hægara um vik að bera saman ólíka lánssamninga. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar helstu hagsmunaaðila, auk ráðuneytisins.

Svonefnd smálánafyrirtæki hófu starfsemi hér á landi í upphafi árs 2010 og falla þau undir nýju lögin. Í lögunum er sett hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar vegna neytendalána sem nemur 50 hundraðshlutum að viðbættum stýrivöxtum Seðlabanka Íslands eins og þeir eru þegar lánssamningur er gerður.

Sum nágrannalönd okkar hafa fundið sig knúin til að bregðast við uppgangi smálánafyrirtækja með aukinni reglusetningu til verndar neytendum. Í þessu samhengi er vert að nefna að um helmingur af 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins hafa í löggjöf sinni ákvæði um hámarksvexti. Finnar lögðu nú á haustþingi fram frumvarp sem kveður á um hámarksvexti á smálánum og Danir hafa tilkynnt að þeir ætli sér slíkt hið sama. Í Norður-Ameríku er sama sagan; í Kanada hefur verið sett 60% hámark á árlega hlutfallstölu kostnaðar og í 35 fylkjum Bandaríkjanna hafa verið settar reglur um smálánastarfssemi sem taka til ýmissa skilyrða s.s vaxta og gjalda.

Kröfur um upplýsingaskyldu lánveitanda eru fyllri í nýju lögunum en þekkst hefur hér á landi. Gerð er krafa um ítarlegar upplýsingar í auglýsingum þar sem fjallað er um vexti eða önnur kjör vegna lánssamnings og gerðar eru kröfur um vissar upplýsingar sem ber að veita fyrir samningsgerð.

Lögin fylgja gildissviði tilskipunar 2008/48/EB að mestu leyti, þó eru fasteignalán og lán að fjárhæð undir 200 evrum og yfir 75.000 evrum ekki undanskilin frá gildissviði þeirra líkt og tilskipunin gerir ráð fyrir.

Deila á