Afsali sér höfuðborgartitlinum

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar í gær og voru mörg mál á dagskrá fundarins. Meðal annars urðu miklar umræður um Reykjavíkurflugvöll og hugmyndir borgaryfirvalda um að leggja völlinn niður. Reiði var meðal fundarmanna með þessar hugmyndir enda flugvöllurinn líflína fyrir íbúa landsbyggðarinnar. Þá er flugvöllurinn mikilvægur öllum þeim sem þurfa að ferðast frá borginni út á land. Eftir umræður var samþykkt að álykta um málið:

 Ályktun

Um Reykjavíkurflugvöll 

„Framsýn- stéttarfélag ítrekar áskorun félagsins til borgarstjórnar og skipulagsyfirvalda í Reykjavík að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni.

Markmiðið verði að tryggja tilvist miðstöðvar innanlandsflugs í næsta nágrenni við helstu heilbrigðis-, mennta- og stjórnsýslustofnanir landsins. Ljóst er að flugvöllurinn gegnir veigamiklu hlutverki í samgöngumálum þjóðarinnar, ekki síst er varðar aðgengi fólks utan höfuðborgarsvæðisins að hátæknisjúkrahúsum. Líflínan liggur í gegnum flugvöllinn.

Samkomulag ríkistjórnarinnar og borgaryfirvalda um að reisa byggð í Vatnsmýrinni er fyrsta skrefið í að leggja niður Reykjavíkurflugvöll.

Almannahagsmunir krefjast þess að friður skapist um flugvöllinn í stað þeirrar miklu óvissu sem verið hefur um framtíð vallarins samkvæmt skipulagi Reykjavíkurborgar. 

Í gegnum tíðina hefur verið byggð upp opinber þjónusta á höfuðborgarsvæðinu fyrir almannafé, ekki síst af landsbyggðinni.  Borgarstjórn Reykjavíkur ber skylda til að veita íbúum landsbyggðarinnar aðgengi að þjónustunni með sem bestum hætti.  Lokun flugvallarins í Vatnsmýrinni er ekki leiðin til þess. 

Sé það vilji borgaryfirvalda að loka flugvellinum og hunsa þannig vilja þjóðarinnar er spurning hvort borgarstjórn eigi ekki að ganga alla leið og afsala sér höfuðborgartitlinum.“

Deila á