Frábært framtak hjá nemendum Grænuvalla

Þessa dagana  stendur yfir Góðgerðarvika í Leikskólanum Grænuvöllum á Húsavík sem er til mikillar fyrirmyndar. Í gær mátti sjá börn úr leikskólanum fara upp á sjúkrahús með viðkomu í Hvammi, heimili aldraðra á Húsavík. Tilgangurinn var að færa heimilismönnum smákökur sem börnin höfðu bakað. Síðan í dag þegar einn af starfsmönnum stéttarfélaganna læddist í Heimabakarí til að fá sér eðalbrauð voru nemendur úr leikskólanum að færa starfsmönnum myndamöppu með teikningum af rjómabollum og ljósmyndum frá Bolludeginum. Með þessari fallegu gjöf vildu ungu nemendurnir færa Heimabakaríi þakklætisgjöf fyrir rjómabollurnar sem bakaríið gaf nemendum skólans á Bolludaginn.

Hér má sjá börn af Bergi sem er deild innan Grænuvalla ásamt starfsmönnum færa fulltrúum Heimabakarís fallega myndamöppu að gjöf fyrir allar bollurnar á Bolludaginn. Eða eins og börnin sögðu,“ þær voru alveg rosalega góðar.“

Deila á