3,5 milljónir greiddar til félagsmanna í janúar

Nokkur umræða hefur verið um mikilvægi sjúkrasjóða fyrir félagsmenn stéttarfélaga og miklar útgreiðslur úr þeim til félagsmanna. Fjölmiðlar fjölluðu töluvert um málið á dögunum. Sjúkradagpeningar hjá stéttarfélögum koma til þegar félagsmenn hafa lokið greiðslum vegna veikindalauna hjá viðkomandi fyrirtækjum. Þá eiga þeir rétt á sjúkradagpeningum í nokkra mánuði enda standi veikindin það lengi. Þá taka sjúkrasjóðirnir þátt í kostnaði félagsmanna vegna t.d. sjúkraþjálfunar, sjúkranudds, sálfræðiaðstoðar auk útfararkostnaðar þegar félagsmenn falla frá.

Eins og fram hefur komið greiddi Framsýn félagsmönnum styrki úr sjúkrasjóði félagsins upp á 25 milljónir á síðasta ári. Ef marka má greiðslur fyrir janúarmánuð 2013 verður met slegið á þessu ári en félagið greiddi félagsmönnum 3,5 milljónir í styrki í mánuðinum sem tengjast rétti þeirra á greiðslum úr sjóðnum. Vitað er að einhver stéttarfélög hafa orðið að grípa til breytinga á reglugerðum sjóðanna til að mæta auknum útgjöldum. Það stendur hins vegar ekki til hjá Framsýn. Félagið leggur mikið upp úr því að veita félagsmönnum gott öryggi með öflugum sjúkrasjóði.

Deila á