Raufarhöfn og framtíðin

Dagana 26. – 27. janúar hefur verið boðið til íbúaþings á Raufarhöfn, undir yfirskriftinni: „Raufarhöfn og framtíðin“.  Þingið er haldið á vegum sameiginlegs verkefnis Byggðastofnunar, Norðurþings, Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga, Háskólans á Akureyri og íbúa Raufarhafnar, um þróun byggðar á Raufarhöfn. Þá hefur Framsýn einnig látið sig málið varða. Umsjón með þinginu hefur Sigurborg Kr. Hannesdóttir, hjá ILDI, þjónustu og ráðgjöf. Í upphafi dagskrár verður m.a. greint frá stöðu þeirra mála sem rædd hafa verið á fyrri fundum, s.s. möguleikum í sjávarútvegi, þróun SR svæðisins, eflingu ferðaþjónustu og ráðningu starfsmanns í þróunarverkefni. Til umræðu er allt það sem þátttakendur vilja ræða, um stöðu og framtíð Raufarhafnar; atvinnumál, umhverfismál og málefni samfélagsins. Fyrirkomulagið er þannig að þátttakendur sjálfir móta dagskrána. Fyrri daginn eru dregnar fram hugmyndir, þær vegnar og metnar og síðari daginn er gengið frá forgangsröðun verkefna og aðgerðaáætlunum. Þingið er opið  íbúum á Raufarhöfn.

Íbúaþingið fer fram í Grunnskóla Raufarhafnar.

Deila á