Kveðja Húsavík með miklum söknuði

Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum hafa í gegnum tíðina myndað gott samband við erlent vinnuafl á félagssvæðinu. Um þessar mundir eru væntanlega um 200 erlendir starfsmenn við störf í Þingeyjarsýslum. Ekki er óalgengt þegar viðkomandi einstaklingar yfirgefa landið að þeir komi við á Skrifstofu stéttarfélaganna og þakki fyrir sig og aðstoðina sem þeir hafa fengið hjá stéttarfélögunum. Í gær litu við Rafal Nowosielski og Renata Nowosielska sem dvalið hafa á Húsavík í tæp fimm ár og eru nú að yfirgefa Húsavík, en þau fljúga heim til Póllands á morgun.  Þau hafa starfað við fiskvinnslu og ferðaþjónustu þau ár sem þau hafa dvalið á svæðinu. Upphaflega komu þau til Íslands eftir framhaldsskólanám. Litla vinnu var að hafa í Póllandi og því var tekin stefna til Íslands í atvinnuleit, Húsavík varð fyrir valinu. Þau sögðust vera afar ánægð með dvölina á Húsavík, staðurinn væri frábær sem og fólkið sem væri afar vingjarnlegt.  Hér væri allt rólegra en í Póllandi og hér gætu menn gengið áhyggjulausir um bæinn, hér væri öryggi til staðar. Þá sagði Rafal sem er áhugaljósmyndari að það væru forréttindi fyrir hann að fara um Ísland og taka ljósmyndir. Myndir hans hafa vakið athygli í Póllandi og sagðist hann hugsanlega koma með hóp ljósmyndara til Íslands á næsta ári til að taka myndir af íslensku landslagi. Þau sögðust einnig átta sig á því í dag, hvað það skipti miklu máli að hafa aðgengi að sterku stéttarfélagi eins og Framsýn. Það væri ómetanlegt og fyrir það vildu þau þakka. Verkalýðshreyfingin í Póllandi væri því miður ekki byggð upp eins og sú íslenska. Þau sögðust hafa notað tímann vel á Íslandi og sparað peninga sem þau hefðu notað til að kaupa sér húsnæði í sínum heimabæ í Póllandi. Vera þeirra á Íslandi hefði skipt þau verulega miklu máli og nú væri kominn tími til að horfa heim aftur til Póllands, þar væri jú allt skyldfólkið. Þau vildu að lokum þakka heimamönnum fyrir dvölina og hjálpsemina þau tæpu fimm ár sem þau höfðu dvalið á Húsavík. Þau sögðu, takk fyrir okkur, um leið og þau lögðu upp í langa ferð til Póllands.

Rafal Nowosielski og Renata Nowosielska kveðja Húsavík með miklum söknuði. Þeim hefur líkað afar vel á staðnum, en eru nú á heimferð.

Kúti, takk fyrir okkur, það hefur verið frábært að leita til Framsýnar í gegnum árin. Starfsmenn félagsins eru alltaf velkomnir til Póllands í heimsókn.

Deila á