Baráttuhugur í heimamönnum

Byggðastofnun ásamt heimamönnum boðaði til opins fundar um atvinnumál á Raufarhöfn í dag. Fundurinn sem hófst kl. 17:30 fór vel fram og greinilegt er að íbúar á Raufarhöfn vilja leggja sitt að mörkum til að stöðva fólksfækkunina sem orðið hefur á Raufarhöfn undanfarin ár og áratugi. Reyndar hefur fólksfækkunin orðið mest á Raufarhöfn sé miðað við þéttbýliskjarna á Íslandi.

Heimamenn voru á því að tækifærin til að efla byggðina liggi víða. Auka þurfi fiskvinnslu á staðnum, útgerð, ferðaþjónustu og skapa þurfi störf fyrir ungt fólk auk þess að veita þeim möguleika til að stunda nám lengur í heimabyggð. Þá var lagt að Byggðastofnun að ráða starfsmann til Raufarhafnar til að fylgja eftir þeim hugmyndum sem komið hafa fram og beinast að því að efla atvinnulífið og þar með mannlífið á Raufarhöfn. 

Jafnframt töldu fundarmenn tækifæri felast í þjónustu við Drekasvæðið verði niðurstaðan sú að hefja þar olíuleit og vinnslu á svæðinu. Koma þyrfti Raufarhöfn á kortið. 

Eftir málefnalegan fund var samþykkt að boða til íbúafundar í janúar og kalla enn frekar fram hugmyndir heimamanna um allt það sem getur komið Raufarhöfn til góða og snúið neikvæðri byggðaþróun í jákvæða átt. Íbúar á Raufarhöfn eru tilbúnir að takast á við þetta verkefni sé miðað við þær fjölmörgu ræður sem fluttar voru á fundinum í dag.

Rúmlega 50 manns tóku þátt í fundinum á Raufarhöfn sem fór vel fram. Fulltrúar Framsýnar voru að sjálfsögðu á fundinum.

Deila á