Verkalýðsfélag Grindavíkur svarar áskorun

Stjórn Verkalýðsfélags Grindavíkur samþykkti á fundi í gær að verða við áskorun Framsýnar- stéttarfélags um að leggja fram kr. 120.000,- til stuðnings málsókn Verkalýðsfélags Akraness sem samþykkti nýlega að láta á það reyna fyrir dómsstólum hvort verðtrygging hér á landi standist lög. Ljóst er að málsóknin mun kosta nokkrar milljónir. Framsýn hafði áður skorað á aðildarfélög Starfsgreinsambandsins að koma að málinu með fjárstuðningi svo Verkalýðsfélag Akraness þurfi ekki eitt félaga að standa að þeim mikla kostnaði sem fylgir málarekstrinum. Verkalýðsfélag Grindavíkur er fyrst félaga til að verða við áskorunninni  svo vitað sé. Í samtali við heimasíðuna sagðist Magnús Már Jakobsson formaður telja afar mikilvægt að félögin stæðu saman í þessu mikilvæga máli. Hann sagðist ekki trúa öðru en að önnur félög innan Starfsgreinasambandsins kæmu að málinu en 19 félög eru innan sambandsins. Hann sagði jafnframt að það hefði verið algjör samstaða á stjórnarfundinum í gær um að styðja við bakið á félögunum á Akranesi.Magnús Már er hér fremstur á myndinni. Myndin er tekin á þingi ASÍ í október 2012.

Deila á