Stéttarfélagið Framsýn hefur sent bréf til allra þingmanna Norðurlands kjördæmis eystra til að vekja athygli á því að á síðustu 20 árum hefur íbúum Raufarhafnar fækkað um helming og landaður afli hefur á sama tíma minnkað um ríflega 97%, samkvæmt tölum frá Hagstofunni.
Að sögn formanns Framsýnar hafa margir íbúar leitað til stéttarfélagsins undanfarið og kallað eftir hjálp til þess að stöðva þessa þróun en Byggðastofnun og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga hafa hrundið af stað vinnufundum með íbúum til þess að fá fram þeirra sjónarmið.
„Við þurfum hjálp, við þurfum aðstoð. Við þurfum hjálp frá Alþingi,“ segir Einar Sigurðsson, íbúi á Raufarhöfn. Einar bendir á að unga fólkið sem fari burt til að mennta sig hafi að engu að snúa og því eigi engin endurnýjun á fólki sér stað. Sama eigi við um fleiri af smærri bæjum landsins en að hans mati gætu stjórnvöld auðveldlega snúið þessari þróun við t.d. með lægri flutningsgjöldum og minni skattlagningu sem lokkað gætu fyrirtæki til þess að hefja rekstur í jaðarbyggðum.
„Meðan flutningur er dýr hingað þá sjá kannski ekki fyrirtæki sér hag í að koma hingað þó það sé eitthvað ódýrara iðnaðarhúsnæði, út af dýrum flutningsgjöldum fram og til baka. En það er ekki samkeppnishæft að vera að stofna einhver fyrirtæki hér, að ég tali ekki um iðnað, á við fyrirtæki í Reykjavík, sem þarf ekki að borga neinn flutning,“ segir Einar. (ruv.is)