Fá ekki greidd laun vegna kennitöluleysis

Töluvert er um að erlendir starfsmenn sem réðu sig til starfa við sauðfjárslátrun á Íslandi í haust hafi sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna  á Húsavík vegna óánægju með hversu langan tíma það tekur að fá kennitölu en Þjóðskrá Íslands gefur sér 5-6 vikur til að afgreiða kennitölur. Fyrirtækjum er óheimilt að greiða út laun til starfsmanna nema þeir hafi áður fengið kennitölu.

Þess vegna kemur það sér afar illa fyrir erlenda starfsmenn, hversu langan tíma það tekur að fá kennitölu. Meðan fá þeir ekki laun til framfærslu. Dæmi eru um að forsvarsmenn sláturhúsa hafi einnig sett sig í samband við Skrifstofu stéttarfélaganna vegna sama máls. Þeirra vilji er að standa við gerða kjarasamninga og greiða starfsmönnum út laun á réttum tíma. Kennitöluleysið hamlar því hins vegar.  Framsýn hefur þegar haft samband við Þjóðskrá Íslands og gert alvarlegar athugsemdir við þann langa tíma sem það tekur að fá kennitölur fyrir starfsmenn. Full ástæða er til þess að Þjóðskráin endurskoði sínar verklagsreglur með það að markmiði að flýta úthlutun á kennitölum. Staðan í dag er óþolandi.

Erlendir starfsmenn sem koma tímabundið til starfa á Íslandi við sauðfjárslátrun eru óánægðir með þann langa tíma sem tekur að fá kennitölu.  Framsýn tekur undir það auk þess sem forsvarsmenn sláturhúsa sem haft hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík telja ástandið óviðunandi.

Deila á