Kristján í bústörfin og Karl Eskil í ritstjórastólinn

Sá ágæti fréttamaður, Karl Eskil Pálsson, hefur verið ráðinn ritstjóri Vikudags, sem kemur út á Akureyri. „Þetta leggst vel í mig. Vikudagur er öflugt blað á Eyjafjarðarsvæðinu og nýtur virðingar fyrir vandaðan fréttaflutning,“ segir Karl Eskil í frétt í Vikudegi.

Kristján Kristjánsson knattspyrnumaður og fyrrverandi ritstjóri blaðsins mun flytja sig um set frá Akureyri í Aðaldalinn og gerast bóndi á Hraunkoti. Kristján er drengur góður og á örugglega eftir að gera góða hluti sem afburða bóndi enda alltaf haft bullandi metnað fyrir því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur um dagana. Kristján er boðinn velkominn í Aðaldalinn en hann spilaði um tíma knattspyrnu með Völsungum og reyndar Miðbæingum líka.

 Stjáni bóndi er hér í leik með Miðbæingum á móti Torgurum í sumar á Mærudögum.

Deila á