Frístundabændur á Húsavík stóðu fyrir árlegri hrútasýningu í gær á Mærudögum. Að venju vakti sýningin töluverða athygli og fjöldi fólks tók þátt í gleðinni með fjáreigendum. Í ár var gestum boðið upp á hangikjöt af bestu sort af feitum sauði frá Stórutungubræðrum sem smakkaðist afar vel. Keppt var í tveimur flokkum, það er í flokki veturgamalla hrúta og eldri hrúta. Gráni sem er í eigu Kristjáns Eiðssonar sigraði í yngri flokknum og Steinar sem er í eigu Óðins Sigurðssonar sigraði í flokki eldri hrúta. Báðir virkilega fallegir hrútar og sérstaklega góðir til undaneldis.
Þeir Guðmundur Ágúst Jónsson og Sigurður Ágúst Þórarinsson þukluðu hrútana í gær og gáfu þeim stig eftir ákveðnum reglum.
„Allir helstu fjölmiðlar heims voru á hrutasýningunni í gær“
Töluverður fjöldi fólks fylgdist með þuklinu og hafði gaman af.
Pétur Helgi Pétursson stjórnaði samkomunni í gær og fórst það vel úr hendi.
Margir fallegir hrútar voru þuklaðir. Svo allt færi vel fram voru tveir hraustir menn fengnir til að halda í hrútana. Hér eru Jósef Matthíasson og Guðbrandur Stefánsson.
Sigurvegarinn, Gráni, sem er í eigu Lindu Bald og Kristjáns Eiðssonar. Gráni er veturgamall hrútur.