Hefur bensínverðið áhrif?

Þessa dagana er verið að yfirfara umsóknir félagsmanna um orlofshús og orlofsíbúðir sumarið 2012. Umsóknir félagsmanna í ár eru heldur  færri en síðasta ár er þá sóttu 130 félagsmenn um orlofskosti á vegum félaganna.  Umsóknirnar í ár eru  113. Fækkun umsókna milli ára nemur 13%. Hugsanlega má rekja fækkunina til bensínhækkana en verðið hefur aldrei verið hærra en um þessar mundir. Til viðbótar má geta þess að veruleg aukning varð á umsóknum um orlofskosti eftir hrunið 2008 en þá fækkaði á móti verulega utanlandsferðum hjá fólki vegna kreppunnar. Í heildina litið er ljóst að niðurgreiðslur stéttarfélaganna til félagsmanna vegna orlofskosta auðveldar þeim að njóta þess að fara í frí með sínum fjölskyldum. Ekki er óalgengt að niðurgreiðslurnar nemi um 35-40.000,- krónum fyrir vikuna. Verð til félagsmanna milli ára verður hins vegar það sama eða kr. 20.000,- fyrir vikudvöl.

Þess má geta að í  fyrra voru 141 vika í orlofshúsum/íbúðum í boði fyrir félagsmenn. Í sumar er boðið upp á aukið framboð eða 154 vikur. Þrátt fyrir þetta mikla framboð er ljóst að allir munu ekki fá vikuna eða húsið sem þeir völdu sem fyrsta kost þar sem sum hús eru vinsælli en önnur. Í næstu viku verður búið að ganga frá niðurröðun í húsin. Upp úr því fá síðan allir bréf um úthlutunina, það er hvort þeir hafi fengið hús/íbúð eða ekki.

Deila á