Nú liggur fyrir að konur verða mjög ráðandi í starfi Framsýnar næsta kjörtímabil sem eru tvö ár. Kjörnefnd félagsins skilaði fyrir nokkru tillögum um félaga í stjórnir, ráð og nefndir á vegum Framsýnar starfsárin 2012-2014. Af 13 manna stjórn og varastjórn eru níu konur og fjórir karlar og hafa konur aldrei verið fleiri í stjórn félagsins en nú. Þar sem ekki bárust fleiri tillögur fyrir auglýstan frest, skoðast tillaga kjörnefndar samþykkt. Ný stjórn mun svo taka við eftir næsta aðalfund félagsins sem haldinn verður í lok maí. Þá liggur fyrir að Aðalsteinn Á. Baldursson verður áfram formaður félagsins og Kristbjörg Sigurðardóttir varaformaður. Það hefur lengi verið lagt að frjálsum félagasamtökum að velja konur í stjórnir þar sem þótt hefur halla mjög á þeirra vægi í stjórnum fyrirtækja, félagasamtaka og í sveitarstjórnum. Samkvæmt þessari niðurstöðu verður það ekki sagt um starfsemi Framsýnar. Meira kynja jafnvægi er í trúnaðarmannaráði félagsins. Þar sitja átta karlar og sjö konur. Áhugavert verður að sjá hvort breytingar verða á stefnu félagsins á næstu árum, nú þegar konur eru í miklum meirihluta í stjórn félagsins.