Minningargrein- Anna Jónína Valgeirsdóttir

Hér má lesa minningargrein um Önnu Jónínu Valgeirsdóttir sem jarðsungin var frá Húsavíkurkirkju laugardaginn 3. mars.  Höfundur, Aðalsteinn Á. Baldursson.Það sem gefur lífinu gildi er að kynnast góðu, jákvæðu  og heiðarlegu fólki á lífsleiðinni. Í störfum mínum sem formaður í stéttarfélagi hefur mér auðnast þessi mikli heiður.  Ein kona sem tilheyrir þessum hópi er Anna Jónína Valgeirsdóttir sem nú er látin.  Blessuð sé minning hennar.  

Sem róttækur ungur maður fór ég snemma að sækja fundi í Verkalýðsfélagi Húsavíkur, nú Framsýn- stéttarfélagi. Félagsmenn voru mis duglegir að sækja félagsfundi en það vakti strax athygli mína að eldri kona mætti á flesta fundina sem haldnir voru á kvöldin. Virðuleg í fasi gekk Anna í salinn og bauð alltaf góða kvöldið með bros á vör.   Hún sagði ekki mikið á fundunum en fylgdist þeim mun betur með því sem fram fór. Anna hafði alltaf einkabílstjóra, en eiginmaður hennar sá um að keyra henni þegar með þurfti. Greinilegt var að mikill kærleikur var í hjónabandinu enda mjög samrýmd hjón þar á ferð. 

Eftir að sá sem þetta skrifar tók við sem formaður í Verkalýðsfélagi Húsavíkur hélt Anna áfram að mæta á opna fundi í félaginu. Hún naut þess einnig að taka þátt í hátíðarhöldunum 1. maí. Oftar en ekki sagði hún mér hvað hún væri stolt af hátíðarhöldum og þeim fjölda sem kæmi á hverju ári til að taka þátt í þeim. Reyndar heyrði ég Önnu aldrei tala niðrandi eða illa um fólk eða nokkurn hlut.  Slíkur orðaforði var ekki til í hennar hugarheimi  enda öndvegis kona í alla staði.

Ég gleymi því heldur ekki þegar ég frétti að Anna ætlaði að hætta störfum hjá Húsavíkurbæ eftir áratuga farsælt starf enda komin á eftirlaunaaldur. Hennar hlutverk var að sjá um að halda bæjarskrifstofunum hreinum. Ég hringdi í Önnu og sagðist ætla að fá að heimsækja hana síðasta starfsdaginn og taka mynd af henni þar sem hún væri að ljúka farsælu ævistarfi hjá sveitarfélaginu. Hún tók mér vel eins og alltaf. Þegar ég mæti svo á staðinn og ætlaði að smella af henni mynd sagðist Anna þurfa að bregða sér aðeins frá. Ég beið dálitla stund en svo birtist Anna ný máluð og vel tilhöfð í fínum fötum. Ég brosti og sagðist hafa ætlað að taka mynd af henni við störf í vinnufötunum í sínu eðlilega vinnuumhverfi. Hún sagði það ekki ganga upp, menn ættu að vera fínir á myndum. Að sjálfsögðu virti ég skoðanir Önnu og smellti af henni mynd.

Anna er ein af þeim sem reglulega hefur hvatt mig til dáða í baráttunni fyrir bættum kjörum verkafólks, öryrkja og aldraða. Fyrir það virði ég Önnu og þakka fyrir. Ég vil einnig þakka Önnu fyrir hlýlegt viðmót í garð Framsýnar og starfsmanna stéttarfélaganna en Anna átti það til að færa starfsmönnum góðgæti með kaffinu. Í einlægni sagt, það vantar lýsingarorð í íslenskt mál til að lýsa þeirri hjartahlýju sem bjó í Önnu Valgeirs. Einstök kona er fallinn frá.  Ég vil votta Þorgeiri, Valgeiri, fjölskyldum þeirra  og öðrum aðstandendum innilegrar samúðar við fráfall Önnu Jónínu Valgeirsdóttur. Minning um góða konu og félaga mun lifa um ókomin ár.

Aðalsteinn Á. Baldursson

Deila á