Staða Stapa er þokkalega sterk

Staða Stapa er þokkalega sterk, svo mælti Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa, lífeyrissjóðs á fjölmennum fundi á Húsavík í gær um lífeyrismál. Stjórn Stapa lífeyrissjóðs hefur samþykkt að boða til nokkurra sjóðfélagafunda í samstarfi við stéttarfélögin á næstu dögum. Tilefni fundanna er nýleg skýrsla um úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008. Fyrsti fundurinn var haldinn á Húsavík í gær. Salur Framsýnar var þéttsetinn, þannig að greinilegt er að staðan er ofarlega í hugum margra. 

„Okkur finnst skýrslan ekki gefa rétta mynd af því hvernig lífeyrissjóðirnir komu út úr hruninu, of mikil áhersla sé lögð á hvað fór aflaga. Að sjálfsögðu er eðlilegt að ræða þau atriði, en okkur finnst skýrsluhöfundar ekki draga fram hvað vel og rétt var gert. Lífeyrissjóðirnir urðu vissulega fyrir miklu höggi í kjölfar bankahrunsins, þar með talinn Stapi,“ segir Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa.

Hann segir að lesa megi út úr skýrslunni að lífeyrissjóðirnir séu nánast horfnir, sem sé fjarri lagi.

„Við höfum ekki náð að ávaxta sjóðinn nógu vel til að standa að fullu undir lífeyrisréttindum, sem eru verðtryggð auk 3,5% vaxta. Samt sem áður bendi ég á að lífeyrisgreiðslur hafa hækkað meira en laun flestra launþega. Lífeyrir hefur hækkað um 28 % frá hruni. Staða Stapa er þokkalega sterk og ég er bjartsýnn á að við séum langt komin með að jafna okkur eftir hrunið. Framtíðin er hins vegar óljós og verður alltaf.“ 

Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar segir að fundurinn hafi verið gagnlegur.

„ Staðan var skýrð út á mannamáli og hinum almenna sjóðsfélaga gafst kostur á að tala milliliðalaust við stjórnendur sjóðsins og segja sína skoðun. Að mínu viti hefur umræðan um lífeyrissjóðina verið á margan hátt ósanngjörn, hitt er svo annað mál ýmislegt má bæta í kerfi íslenskra lífeyrissjóða og mér sýnist að sjóðirnir séu í gagngerri naflaskoðun.“

Aðalsteinn segir að fyrir hrun hafi útrásarvíkingarnir haldið úti svikamyllu í fjármálakerfinu.

„Leikrit voru sett á svið og markaðurinn blekktur fram og til baka. Lífeyrissjóðirnir bitu á agnið eins og aðrir fjárfestar,  vissu ekki annað en að þeir væru að gera rétt. Það er auðvelt að gagnrýna þessa hluti í dag, en fyrst og fremst þurfum við að læra af því sem aflaga fór í samfélaginu og byggja okkur upp á nýjan leik.

Hvað með sameiningu lífeyrissjóða?
,,Já, ég sé fyrir mér sameiningu lífeyrissjóða í framtíðinni. Þeir eru í dag rúmlega þrjátíu, ég hef nefnt að hugsanlega mætti fækka þeim niður í einn tug eða svo. Þá er sömuleiðis brýnt að jafna réttindi fólks, munurinn í dag er allt of mikill.“ 

Á fundinum í gær urðu mjög líflegar umræður um stöðu Stapa, starfsemi sjóðsins og framtíðar fyrirkomulag varðandi stjórnun sjóðsins. Hópur fundarmanna tók til máls og spurði forsvarsmenn út í málin enda liggja þau þungt á sjóðsfélögum. Fundarmenn voru almennt ánægðir með fundinn og þær upplýsingar sem fram komu um starfsemi sjóðsins.

Fjölmenni var á fundinum í gær og komu menn víða að.

Kári Arnór Kárason fór vel yfir stöðu Stapa í gær og svaraði auk þess fjölda fyrirspurna um starfsemi sjóðsins.

Það vantaði ekkert upp á athygli manna á fundinum í gær.

Stjórnarmenn Stapa voru á svæðinu. Hér eru þeir Þórarinn og Ágúst Torfi að fylgjast með yfirferð Kára Arnórs framkvæmdastjóra sjóðsins.

Fundarmenn voru almennt á því að fundurinn hefði verið fræðandi og  málefnalegur.

Svavar G. Kristmundsson og Sævar Guðbrandsson ræða hér við Kára Arnór eftir fundinn í gærkvöldi sem stóð yfir í tæpa þrjá tíma.

Deila á