Nýr formaður Félags málmiðnaðarmanna Akureyri

Fjölmennur aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri var haldinn síðasta laugardag og var Jóhann R. Sigurðsson kjörinn nýr formaður. Fráfarandi formaður, Hákon Hákonarson hefur gengt því embætti í 36 ár, en hann hefur setið í stjórn félagsins í 44 ár. Jóhann er menntaður bifvélavirki og starfar hjá Stillingu á Akureyri. Hann hefur tekið virkan þátt í starfsemi FMA, var síðast varaformaður. „Þetta er sannarlega lítið félag með stórt hjarta. Fjárhagsstaðan er góð og ég fullyrði að þjónustan stenst vel samanburð við önnur stéttarfélög. Áhersla hefur verið lögð á að fjármunirnir skili sér til félaganna með ýmsum hætti. Við megum ekki gleyma því að félagið er til fyrir félagsmenn, en ekki öfugt.“ Hákon Hákonarson segir að staða málmiðnaðarfyrirtækja á félagssvæðinu sé almennt góð. „Félagarnir eru í flestum tilvikum sáttir við starfsemina, það sýnir glögglega ný skoðanakönnun og miklu skiptir að fjárhagsstaða félagsins er mjög traust. Kannski er helsta ástæðan fyrir því að ég hef verið svona lengi í starfinu sú að félagarnir hafa veitt mér nauðsynlegt aðhald, sem ég túlka fyrst og fremst sem stuðning. Að mínu viti hefur félagið alla burði til að vera áfram málsvari fyrir málmiðnaðarmenn á þessu landssvæði, veita víðtæka þjónustu og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna í góðu samstarfi við önnur samtök launamanna. Stoðirnar eru traustar, en gleymum því ekki að hver og einn félagsmaður er mikilvægur hlekkur í þessari keðju. Þessi tími hefur verið ánægjulegur en á margan hátt krefjandi og gefandi.“ Aðalfundurinn ályktaði um nokkur mál er snerta  Norðlendinga m.a. um uppbyggingu á Bakka við Húsavík. Sjá ályktanir.

Ályktun um atvinnumál
Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri haldinn 25. febrúar 2012 lýsir yfir áhyggjum af  miklu og viðvarandi atvinnuleysi.

Í janúar á þessu ári voru að jafnaði 775 einstaklingar án atvinnu á Norðurlandi eystra, 434 karlar og 341 kona. Þrátt fyrir að hlutfallslegt atvinnuleysi sé minna í fjórðungnum en á landinu öllu eru tölurnar allt of háar og mikið áhyggjuefni.

Aðalfundurinn bendir á að á Norðurlandi eru margir álitlegir fjárfestingarkostir, sem nánast bíða þess að verða hrint í framkvæmd.

Félagið minnir stjórnvöld á að við gerð síðustu kjarasamninga var mjög rætt um að stuðla að auknum fjárfestingum til þess að leggja grunn að auknum hagvexti og atvinnu.

Í þingeyjarsýslum eru virkjunarkostir fyrir orkufrekan iðnað og Bakki við Húsavík er raunhæfur kostur fyrir slíkan iðnað.

Aðalfundurinn skorar á ríkisstjórn Íslands, sveitarfélög, samtök atvinnulífsins og samtök launþega að snúa bökum saman og sigrast á atvinnuleysinu hér á landi. Því fyrr, því betra.

Ályktun um Reykjavíkurflugvöll
Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, haldinn 25. febrúar 2012 beinir því eindregið til stjórnvalda og borgaryfirvalda að núverandi staðsetning Reykjavíkurflugvallar verði tryggð til frambúðar.

Verði hugmyndir um að flytja miðstöð innanlandsflugs frá Reykjavíkurflugvelli að veruleika er einsýnt að mikil afturför verður í bráðaþjónustu við þá landsmenn sem þurfa að komast landsspítala- háskólasjúkrahúss, með sjúkraflugi. 

Mikilvægi nálægðar flugvallarins og sjúkrahússins er ótvírætt og getur skipt sköpum, auk þess sem flugvöllurinn gegnir lykilhlutverki í öryggisneti landsins.

Aðalfundurinn minnir á að í höfuðborginni eru staðsettar höfuðstöðvar stjórnsýslu landsins, auk flestra opinberra stofnana landsins á sviði viðskipta-, mennta-, menningar- og heilbrigðismála. Sú staðreynd kallar á greiðar samgöngur til og frá höfuðborginni, eigi Reykjavík að geta staðið undir nafni sem höfuðborg allra landsmanna.

Flutningur á miðstöð innanlandsflugs frá Reykjavíkurflugvelli er því óviðunandi  afturför.

Ályktun um gerð Vaðalheiðarganga
Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna, haldinn á Akureyri 25. febrúar 2012 styður eindregið gerð Vaðalheiðarganga og telur fundurinn mikilvægt að framkvæmdir hefjist sem fyrst, enda ljóst að gerð ganganna styrki  atvinnulífið við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum og bæti þar með búsetuskilyrði til muna.

Aðalfundurinn hvetur stjórnvöld til að standa við bakið á heimaaðilum, enda liggi fyrir fullnægjandi gögn um kostnað og rekstur ganganna.

Bent er sérstaklega á að Vaðlaheiðargöng koma til með að auka til muna öryggi vegfarenda og verða góð samgöngubót.

Aðalfundurinn fagnar samstöðu sveitarfélaga og stofnana á svæðinu um fjárhagslegan stuðning við verkefnið  og óskar jafnframt eftir málefnalegum umræðum um þetta brýna hagsmunamál allra landsmanna. 

Ályktun um mikilvægi Sjúkrahússins á Akureyri
Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri, haldinn 25.02.2012 skorar á stjórnvöld að standa vörð um Sjúkrahúsið á Akureyri.

Í kjölfar skertra fjárframlaga hins opinbera til stofnunarinnar á undanförnum árum er ljóst að veruleg þjónustuskerðing er staðreynd, sem bitnar fyrst og fremst á sjúklingum sem búsettir eru á norður- og austurlandi.

Ekki er hægt að tala um hagræðingu í þessu samhengi.

Hætta er á að í kjölfar stórlega skertra fjárveitinga glatist sérhæfing og sérþekking, auk þess sem niðurskurðurinn rýrir augljóslega búsetuskilyrði og veltir auknum kostnaði yfir á sjúklinga.

Aðalfundurinn minnir stjórnvöld á mikilvægi Sjúkrahússins á Akureyri sem þjónustustofnunar fyrir Norðausturland, kennslusjúkrahúss og aðalvarasjúkrahúss fyrir landið allt.

Aðalfundurinn dregur í efa að mikill niðurskurður í heilbrigðiskerfinu skili tilætluðum árangri til lengri tíma litið. Því þurfi stjórnvöld að marka sér nýja stefnu í heilbrigðismálum, þar sem tillit verði tekið til fleiri þátta en fjárhagslegra.

Ályktun um björgunarþyrlur
Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri haldinn 25. febrúar 2012 skorar á ríkisstjórn Íslands að efla nú þegar þyrlukost Landhelgisgæslu Íslands, fundurinn telur nauðsynlegt að keyptar verði tvær þyrlur til viðbótar núverandi flota.

Samkvæmt samantekt Landhelgisgæslu Íslands fyrir tímabilið 1994 til 2010 hefur 1513 einstaklingum verið bjargað með flugförum LHG. Þar af var 361 einstaklingi bjargað á sjó og 1152 í landi. Í yfir 70 % tilvika er talið að þyrla hafi skipt sköpum.

Aðalfundurinn telur nauðsynlegt að þyrlukostur LHG sé það öflugur og traustur að ávallt séu tvær þyrlur til reiðu annan sólarhringinn er sinni leit og björgun, sjúkraflutningum og öðrum verkefnum til lands og sjós. Til að hafa tvær þyrlur til reiðu allan sólarhringinn hring þarf minnst 4 þyrlur í rekstri og tvær vaktir.

Fyrir landsmenn alla er það lífsspursmál að tækjakostur Landhelgisgæslu Íslands sé viðunandi.

 Ályktun um skyndihjálp
Aðalfundur Félags málmiðnaðarmanna Akureyri haldinn laugardaginn 25. febrúar árið 2012 felur stjórn félagsins að kanna í samstarfi við vinnuveitendur félagsmanna hvort ekki sé hægt í samstarfi við Rauðakrossinn að halda skyndihjálparnámskeið fyrir félagsmenn. Tilgangur verkefnisins er að gera félagsmenn hæfari til að bregðast við ef óhapp ber að höndum.

Formaður og fráfarandi formaður: Jóhann R. Sigurðsson var kjörinn nýr formaður á fundinum. Fráfarandi formaður, Hákon Hákonarson hefur gengt því embætti í 36 ár, en hann hefur setið í stjórn félagsins í 44 ár. Stéttarfélögin í Þingeyjarsýslum bjóða Jóhann velkominn til starfa um leið og þau þakka Hákoni fyrir vel unnin störf í þágu launþega í landinu.

Deila á