Kynningarfundur á samstarfinu um íslenska jarðvarmaklasann

Fimmtudaginn 16. febrúar frá kl. 17:00 til 18.30 verður haldinn almennur kynningarfundur á klasasamstarfi um íslenska jarðvarmann, Iceland Geothermal, í húsnæði stéttarfélaganna að Garðarsbraut 26, Húsavík. Framsýn og ráðgjafafyrirtækið Gekon standa að fundinum. Allir eru velkomnir.

Tæplega 70 fyrirtæki og stofnanir vinna nú saman að því að bæta samkeppnishæfni Íslendinga í öllu því sem að lýtur að nýtingu á jarðvarma.  Á síðustu mánuðum hafa norðlenskir aðilar verið að koma inn í þetta samstarf í ríkum mæli, enda möguleikar Norðlendinga og þá ekki síst Þingeyinga, margvíslegir á þessu sviði.

Ráðgjafafyrirtækið Gekon stýrir þessu samstarfi og munu þau Friðfinnur Hermannsson og Rósbjörg Jónsdóttir frá Gekon fara yfir það helsta sem er að gerast í samstarfinu þessa dagana og ræða hvernig Þingeyingar geti nýtt sér þetta samstarf til að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins í Þingeyjarsýslum.

Óli Halldórsson frá Þekkingarneti Þingeyinga mun lýsa sinni sýn á þetta samstarf og hvernig hann telur að það geti nýst Þingeyingum.

Runólfur Maack aðstoðarforstjóri Mannvits mun fjalla um upplifun sína af samstarfinu innan jarðvarmaklasans. 

Þingeyskir þátttakendur í samstarfinu um jarðvarmann eru; Orkuveita Húsavíkur, Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Grímur ehf. vélsmiðja, Garðræktarfélag Reykhverfinga, Jarðböðin við Mývatn, Þekkingarnet Þingeyinga, Framsýn stéttarfélag. Þátttakendur með starfsemi á svæðinu; VÍS, Landsvirkjun, Mannvit, Nýsköpunarmiðstöð íslands.

Deila á