Eftirlitsferð á Húsavík

Í morgun heimsótti fulltrúar frá stéttarfélögunum á Húsavík og Vinnumálastofnun nokkur fyrirtæki á Húsavík til að kanna notkun vinnustaðaskírteina, en atvinnurekendur og starfsmenn þeirra sem vinna við byggingastarfsemi og mannvirkjagerð, rekstur gististaða eða veitingarekstur skulu bera slík skírteini.  Nokkuð misjafnt  var á milli fyrirtækja hvort starfsmenn væru allir komnir með skírteini en flestir voru með þessi mál í góðum farvegi.   Veitingahúsið Salka var til fyrirmyndar og gátu allir starfsmenn Sölku framvísað löggildu vinnustaðaskírteini þegar eftir því var leitað.

Fleiri eftirlitsferðir eru á dagskránni í sumar en farið verður um allt félagssvæði stéttarfélaganna, allt frá Vaðlaheiði austur á Þórshöfn til að kanna notkun vinnustaðaskírteina.  Þá munu Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri ráðast í sérstakt átak í sumar til þess að hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að standa rétt að samningum sín í milli. Fulltrúar aðilanna þriggja munu heimsækja vinnustaði, kanna aðstæður, veita ráðgjöf og fræðslu um viðeigandi reglur og lagaramma og hvetja bæði atvinnurekendur og launafólk til að gera nauðsynlegar úrbætur ef þurfa þykir.

Athyglinni verður sérstaklega beint að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og áhersla lögð á að svört atvinnustarfsemi, undanskot á launatengdum gjöldum og brot á kjarasamningum séu skaðleg fyrir alla hlutaðeigandi og samfélagið í heild sinni.

Allir forráðamenn atvinnurekstrar í landinu eru hvattir til að hafa tekjuskráningu sína í lagi og alla starfsmenn skráða. Jafnframt að nota vinnustaðaskírteini þar sem það á við og fara að lögum um færslu bókhalds og skil á staðgreiðslu, virðisaukaskatti og öðrum lögboðnum gjöldum.

Nánari upplýsingar um vinnustaðaskírteini má finna á heimasíðunni www.skirteini.is.

Deila á