Orðlausir yfir furðulegum starfslokasamningi

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti í dag að senda frá sér ályktun er varðar ákvörðun Framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands um að ganga frá starfslokasamningi við fyrrverandi framkvæmdastjóra sambandsins. Til viðbótar hafa ekki fengist upplýsingar um hvað samningurinn mun kosta sambandið þrátt fyrir fyrirspurnir þar um.  Ekki er ólíklegt að heildar kostnaðurinn sé um 6. milljónir en það hefur þó ekki fengist staðfest. Ljóst er að margir eru orðlausir vegna þessa gjörnings og skilja eðlilega ekkert í honum.

 Ályktun
Um starfslokagreiðslur til fyrrverandi framkvæmdastjóra SGS

 Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar fordæma harðlega vinnubrögð meirihluta Framkvæmdastjórnar Starfsgreinasambands Íslands við frágang á starfslokasamningi við fyrrverandi framkvæmdastjóra sambandsins. Þrátt fyrir að ekki hafi fengist umbeðnar upplýsingar um kostnað sambandsins við starfslokasamninginn má áætla að hann hlaupi á nokkrum milljónum króna.

 Í minnisblaði frá lögmanni Starfsgreinasambandsins og í skýrslu löggiltra endurskoðenda sem falið var að gera úttekt á bókhaldi sambandsins fyrir árið 2010 koma fram mjög alvarlegar athugasemdir varðandi úttektir af reikningum og kostnaðarfærslur sem ekki eru heimildir fyrir upp á hundruð þúsunda.

Framsýn- stéttarfélag krefst þess að Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins afturkalli þegar í stað starfslokasamninginn við framkvæmdastjórann. Þess í stað verði bókhald sambandsins skoðað fjögur ár aftur í tímann. Komi í ljós að frjálslega hafi verið farið með fjármuni sambandsins verði það þegar í stað kært til lögreglu. 

Framsýn áskilur sér rétt til að láta lögmenn félagsins kanna ábyrgð, forsendur og lögmæti þess að meirihluti framkvæmdastjórnar SGS skyldi gera 6 mánaða starfslokasamning við framkvæmdastjóra sambandsins. Það er á sama tíma og til kvaddir endurskoðendur gera alvarlegar athugsemdir við úttektir og færslur framkvæmdastjórans í bókhaldi sambandsins fyrir árið 2010.

Deila á