Vísa deilunni til Ríkissáttasemjara

Samninganefnd Framsýnar, stéttarfélags, samþykkti á fundi sínum í gær að vísa kjaradeilu félagsins við sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum til Ríkissáttasemjara, þar sem lítið hefur þokast í viðræðum og þolinmæði félagsins því á þrotum. Þess verður jafnframt krafist að Ríkissáttasemjari boði þegar til fundar í kjaradeilunni.

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður félagsins, segist vera bjartsýnn á að samningar klárist á næstu vikum. Menn séu orðnir mjög óþolinmóðir og því sé unnið baki brotnu að því að því að ljúka samningum. Hann segir að viðræðurnar gangi í sjálfu sér ekkert verr hjá þeim en öðrum stéttarfélögum en þau geri hins vegar miklar kröfur fyrir hönd síns fólks, enda séu þau þekkt fyrir að sýna hörku. Það þurfi hærri laun og þau láti ekki bjóða sér hvað sem er.

Hann segist alls ekki sjá fram á það að félagið lækki kröfur sínar, enda telji hann þær réttlátar og treysti því að viðsemjandinn hafi skilning á því. Hann segir að ef til þess komi muni menn þó grípa til aðgerða og reyna að knýja fram kjarasamninga. Samninganefndin sé sem fyrr segir að vísa sínum deilum til Ríkissáttasemjara. Þau muni óska eftir því að fá fund þegar í stað eftir helgina og fá hans hjálp við að ljúka málinu. (Heimild www.visir.is)

Deila á