Eins og sagt var frá á heimasíðunni í gær gengu Framsýn og Verkalýðsfélag Þórshafnar frá kjarasamningi við Samtök atvinnulífsins til þriggja ára. Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar mun fara yfir samninginn á fundi í kvöld. Síðan má reikna með kynningarfundum víða um félagssvæðið um kjarasamninginn. Þá mun atkvæðagreiðsla um samninginn hefjast á næstu dögum. Kjarasamningurinn sem var undirritaður í gær byggir að mestu leiti á kjarasamningi Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins sem undirritaður var fyrir helgina. Til viðbótar koma inn ákvæði um greiðslur fyrir bakvaktir, laun fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu sem lokið hefur námskeiðum og þá verður skipuð nefnd samningsaðila til að yfirfara ágreiningsmál sem upp kunna að koma í ferðaþjónustunni og varða túlkun samningsins. Á fundinum í gær var líka gengið endanlega frá bræðslusamningi fyrir bræðslumenn á Þórshöfn.
Kjarasamningur undirritaður. Formaður og varaformaður Framsýnar ásamt Ragnar Árnasyni frá Samtökum atvinnulífsins ganga frá samningnum í gær í Karphúsinu.