Munum undirbúa frekari viðræður um páskana

Að sögn formanns Framsýnar sem kom heim í gærkvöldi eftir samningafund með Samtökum atvinnulífsins, ásamt varaformanni félagsins, verður samningaviðræðum fram haldið eftir páskana undir stjórn ríkissáttasemjara. Hann sagðist hafa ákveðna trú á því að samningar tækjust um mánaðamótin.  Þá sagði hann það fagnaðarefni að Verkalýðsfélag Akraness hefði gengið frá kjarasamningi við Elkem Ísland í gær sem væri fordæmisgefandi fyrir aðra kjarasamninga, sérstaklega í útflutningsgreinunum. Í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir við Samtök atvinnulífsins hafa Framsýn og Verkalýðsfélag Akraness unnið mjög náið saman eftir að þau sögðu skilið við önnur félög innan Starfsgreinasambandsins vegna ágreinings um áherslur í kröfugerð.  Aðalsteinn sagði páskana verða notaða til að undirbúa frekari viðræður við atvinnurekendur sem boðaðar væru miðvikudaginn 28. apríl í Reykjavík. Reiknaði hann með að fulltrúar Verkalýðsfélags Akraness og Þórshafnar kæmu að því borði líka.

Setið á samningafundi, Vilhjálmur Egilsson frá SA, Magnús Pétursson ríkissáttasemjari og Aðalsteinn Á. Baldursson og Kristbjörg Sigurðardóttir frá Framsýn. Viðræður halda áfram strax eftir páska.

Allt klárt í baksturinn. Formaður Framsýnar færði ríkissáttasemjara og Elísabetu S. Ólafsdóttur skrifstofustjóra hamingjuegg úr landnámshænum frá Húsavík  fyrir fundinn í gær en hefð er fyrir því að eftir undirritun samninga í karphúsinu sé boðið upp á vöfflukaffi. Eggin voru ekki notuð í gær en verða vonandi notuð í bakstur strax eftir páska.

Deila á