Tóku með sér egg suður

Formaður og varaformaður Framsýnar eru á leiðinni suður til fundar við Samtök atvinnulífsins um nýjan kjarasamning fyrir starfsfólk á almennum vinnumarkaði undir vökulli stjórn ríkissáttasemjara.  Sendinefndin tók með sér hamingjuegg úr íslenskum landsnámshænum sem verða færð sáttasemjara til að nota í vöfflubakstur að loknum fundi, en hefð er fyrir því að eftir undirritun samninga í karphúsinu sé boðið upp á vöfflukaffi.  Í símtali frá Akureyrarflugvelli sagðist formaður Framsýnar ekki trúa  öðru en að hægt verði að bjóða upp á dýrindis vöfflukaffi síðar í dag.  Hann sagði þó að fulltrúar SA hefðu ekki sýnt það í viðræðunum undanfarnar vikur að þeir séu á þeim buxunum að fara að semja.  Því væri spurning  hvort að bjartsýni sendinefndarinnar ætti eftir að reynast réttmæt um það að gengið frá samningum síðar í dag.  Hann sagði hins vegar engar vöfflur um það að reynt verði til þrautar í dag að ná samningi og sagðist vonast til að vöffluilmur muni berast um Borgartúnið þegar líður á daginn.

Sem stendur er sendinefndin föst á Akureyrarflugvelli vegna bilunar í flugvél Flugfélags Íslands og því gætu fundahöldin tafist, en þau áttu að hefjast klukkan 11 í karphúsinu.

Deila á