Bogga spáir Norðurþingi sigri í kvöld

Í kvöld fara fram úrslit í spurningakeppninni Útsvari í Hofi á Akureyri. Stórveldin Akureyrarbær og Norðurþing eigast við en þessi lið hafa verið áberandi bestu liðin í keppninni. Þrátt fyrir að flestir séu á því að keppni liðanna verði hörð þá er spádómssvínið Bogga ekki á því. Hún telur sigur Norðurþings vísan, tölfræðin geti ekki komið í veg fyrir sigur sveitarfélagsins.

Þegar hún er spurð nánar út í spádóm sinn segir hún að Norðurþing sé í fyrsta lagi miklu betra lið, gáfnafarið sé ólíkt betra og þá sé liðið virkilega sjarmerandi líkt og Mývatnssveitin. Þá þurfi Norðurþing aðeins að fá 1/6 af stigunum í kvöld miðað við höfðatölu þar sem sveitarfélagið sé þessu minna en Akureyrarbær. Akureyri þurfi að vinna með verulega miklum mun til að teljast raunverulegur sigurvegari.

Einnig megi benda á varaáætlun, sem hún sjái fyrir sér, nái Norðurþingsmenn ekki tilteknum stigum miðað við mannfjölda sem sé reyndar rosalega ólíklegt. Það sé að sjálfsögðu að kæra ákvörðun Sjónvarpsins um að halda keppnina á heimavelli Akureyrarbæjar í Hofi til mannréttindasamtaka og Mannréttindadómstóls Evrópu og jafnvel til Kína líka, enda málið mjög alvarlegt.

Hún spyr, hvenær hefði það til dæmis verið samþykkt af KR-ingum að úrslitaleikur í bikarkeppni KSÍ milli þeirra og Valsmanna færi fram á Hlíðarenda? Það hefði aldrei, aldrei verið samþykkt. Að sjálfsögðu hefði sjónvarpið átt að halda keppnina á hlutlausum velli. Þar komi sterklega inn Þorgeirskirkja í Ljósavatnshreppi hinum forna sem er mitt á milli Akureyrar og Húsavíkur.

Það sé einnig við hæfi þar sem Þorgeir Ljósvetningagoði hafi lagst undir feld á sínum tíma til að taka stórar ákvarðarnir um kristna menn og bölvalda. Umgjörðin þar sé því sú rétta enda hafi keppendur liðanna legið undir feldi síðustu daga til að undirbúa sig fyrir keppnina í kvöld. Reyndar séu Þingeyingar ekki óvanir því að allt sé fært frá Þingeyingum til Akureyrar. Því megi fullkomlega reikna með að eftir sigur Norðurþings í kvöld verði þeim gert að skilja bikarinn eftir á Akureyri. Það sé eftir öllu öðru í gegnum tíðina.

Bogga reiknar einnig með leiðinlegum áheyrendum frá Akureyri í Hofi í kvöld enda aldrei þvælst fyrir Akureyringum að vera leiðinlegir. Þar séu þeir á heimavelli. Hún varar þá við því vera of leiðinlega því þá muni öll svín í Þingeyjarsýslum krefjast þess að hætt verði við Vaðlaheiðagöng þegar í stað. Þess í stað verði borað í gegnum Vaðlaheiði og undir Eyjafjörðinn og komið upp hjá Þelamerkurskóla svo Norðurþingsmenn og aðrir Þingeyingar þurfi ekki oftar að keyra í gegnum Akureyrarhrepp.

Nú er að sjá hvort spádómssvínið Bogga frá Húsavík, sem þegar er orðið landsþekkt, reynist sannspátt í kvöld um gott gengi Norðurþingsmanna en samkvæmt dagatalinu er reyndar 1. apríl í dag sem eykur enn frekar á spennuna og dregur úr gildi spádómsins, því miður fyrir okkur Norðurþingsmenn. En við sjáum til. Heimasíða stéttarfélaganna þakkar Boggu fyrir viðtalið um leið og fulltrúum Norðurþings í Útsvari í kvöld eru færðar góðar baráttukveðjur með von um sigur í kvöld. ÁFRAM NORÐURÞING!

Eftir viðtalið lagðist Bogga undir sinn eigin feld enda orðin verulega spennt fyrir kvöldinu.

Deila á