Hörkufundur um jafnréttismál

Jafnréttisstofa stóð fyrir mögnuðum fundi í dag á Hótel KEA um stöðu kynjanna á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Fundurinn var samstarfsverkefni Jafnréttisstofu, ASÍ, KÍ, BHM, BSRB og Akureyrarbæjar. Fullur salur var af fólki og voru konur í miklum meirihluta. Þrjú fróðleg erindi voru flutt á fundinum. Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu fjallaði um launamun kynjanna en í ár eru 50 ár frá setningu laga um launajöfnuð kvenna og karla. Katrín Björg Ríkarðsdóttir framkvæmdastjóri Samfélags- og mannréttindadeildar Akureyrarbæjar kynnti aðgerðir Akureyrarbæjar til að afnema kynbundið launamisrétti og hvernig nýtt verklag getur tryggt góðan árangur. Að lokum flutti Katrín Anna Guðmundsdóttir verkefnastjóri í fjármálaráðuneytinu erindi um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð á tímum niðurskurðar. Í lok erindanna voru leyfðar fyrirspurnir. Umræðurnar urðu líflegar og skemmtilegar en fundarstjóri á fundinum var Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar.

Það var fullur salur af áhugasömu fólki um launajöfnuð kvenna og karla á Hótel KEA í dag.

Deila á