Á aukaaðalfundi Framsýnar, sem haldinn var fyrr í kvöld, var samþykkt með lófaklappi að félagið afturkalli samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandi Íslands. Fundamenn lýstu óánægju sinni með þann hægagang sem verið hefði í viðræðunum og lögðu mikla áherslu á að ekki yrði vikið frá þeirri grunnkröfu félagsins að lágmarkslaun yrðu hækkuð í 200 þúsund krónur á mánuði og að samið yrði til skamms tíma, í mesta lagi til eins árs. Það var einróma mat fundarmanna að samræmd launastefna og samningur til þriggja ára væri ófær leið. Hún myndi tryggja þeim launahæstu mun meiri krónutöluhækkanir en félagsmönnum á lágmarkslaunum og það væri óásættanlegt. Ákveðið var að vísa kjaradeilunni ekki til Ríkissáttasemjara að svo stöddu heldur reyna þess í stað til þrautar að ná samkomulagi við Samtök atvinnulífsins um sanngjarnar kjarabætur fyrir hönd verkafólks.
Þá kom fram á fundinum að Verkalýðsfélag Akraness, sem líkt og Framsýn afturkallaði samningsumboð sitt frá SGS, hefur óskað eftir nánu samstarfi í þeirri kjarabaráttu sem framundan er. Þá hefur eitt aðildarfélag SGS til viðbótar haft samband við forsvarsmenn Framsýnar og lýst yfir áhuga sínum á að fylgja eftir fordæmi Framsýnar og Verkalýðsfélagi Akraness með því að afturkalla samningsumboð sitt.
Þegar hefur verið boðað til fyrsta samningafundarins, en á morgun verður fundað með Bændasamtökum Íslands vegna landbúnaðarverkamanna. Þá verður á morgun óskað eftir fundi með forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins í næstu viku um kjaraviðræður.
Á fundinum var einnig tekin fyrir niðurstaða úr naflaskoðun félagsins sem fjallað er um annars staðar á heimasíðunni. Þar kom fram að mikil ánægja væri með starfsemi félagsins og einnig komu þar fram ábendingar og hugmyndir sem félagið mun vinna eftir.
Þá var samþykkt að breyta lögum félagsins á þann veg að opna félagið enn frekar fyrir félagsmönnum, enda mikil ásókn verið í félagið.