Glæsileg útkoma úr naflaskoðun Framsýnar

Fyrir nokkru var ákveðið að fara í naflaskoðun á starfsemi Framsýnar. Leitað var til Fræðsludeildar MFA um að sjá um verkefnið sem fór fram 15. febrúar. Um 50 félagsmenn, víðsvegar af félagssvæðinu, tóku þátt í verkefninu. Bæði var um að ræða fólk sem stundað hefur félagsstörf fyrir félagið í stjórnum og ráðum auk almennra félagsmanna sem valdir voru af handahófi. Hér koma helstu niðurstöður en félagsmenn geta fengið niðurstöðurnar í heild sinni á Skrifstofu stéttarfélaganna. Niðurstöðurnar verða kynntar í kvöld á auka aðalfundi Framsýnar.

Þátttakendur voru beðnir um að gefa helstu áhersluatriðum stig eftir mikilvægi þess fyrir félagið og þar með félagsmenn. Önnur atriði en hér eru tilgreint fengu færri atkvæði.

28 atkvæði Þátttaka unglinga í starfi félagsins verði aukið
19 atkvæði Kaup á orlofsíbúð á Akureyri
15 atkvæði Að hagur félagsmanna verði tryggður
15 atkvæði Rýnifundir um starfsemi félagsins verði haldnir reglulega
15 atkvæði Hátíðarhöldin 1.maí verði á sömu nótum og verið hefur
14 atkvæði Jafnvægi verði í stjórnum og ráðum miðað við starfssvæði félagsins
14 atkvæði Félagið er frábært en alltaf má gera betur
12 atkvæði Sjálfstæði félagsins gagnvart ASÍ og SGS verði tryggt
11 atkvæði Fá meiri virkni félagsmanna

Í lokaorðum skýrslunar frá starfsmönnum Fræðsludeildar MFA og Alþýðusambands Íslands kemur eftirarandi fram:

Að loknum vel heppnuðum degi voru þátttakendur beðnir um að segja álit sitt með því að líma límmiða á töflur. Spurt var um tvennt: Hvernig fannst ykkur dagurinn takast? og Er þörf á stefnumótunardegi eins og þessum?

Allir þátttakendur voru mjög ánægðir með daginn og vildu allir (fyrir utan einn) taka þátt í svona degi aftur. Jafnframt fannst félagsmönnum þeir vera þátttakendur í því að móta starfið og hafa áhrif á hvernig það fer fram. Það var afskaplega ánægjulegt að sjá hvernig andinn er í félaginu, hvað allir eru ánægðir með félagið sem segir manni, að vel er haldið utan um starfsemi þess. Niðurstöður hópavinnunnar í öllum umræðunum fjórum voru alltaf jákvæðar. Við hópstjórarnir vissum reyndar fyrirfram að mikil ánægja er með starfið í félaginu og starfsmenn þess, en þessum gríðarlega góðu niðurstöðum áttum við ekki von á.

Ef teknar eru saman helstu niðurstöður hópanna fjögurra kom fram að almenn ánægja er með félagið. Starfsfólkið er áhugasamt, með viðtæka reynslu og þekkingu og býr yfir ótvíræðri hæfni. Efla þarf með ráð og dáð verkalýðspólítíska vitund og virkja félagsmenn til starfa með starfstengdum vinnufundum gegnum trúnaðarmannakerfið. Þá þarf að ná til unga fólksins og fræða það og virkja um réttindi og skyldur og hvetja það til starfa og þátttöku í félaginu. Leggja þarf áherslu á að hagur félagsmanna verði sem allra bestur bæði launa- og samfélagslega séð og útrýma kynbundum launamun. Gæta þarf að jafnvægi í setu félagsmanna í stjórn og trúnaðarmannaráði miðað við félagssvæðið og fá ungliða inn í stjórnirnar. Nauðsynlegt er að sinna jaðarsvæðum félagsins betur og efla þjónustuna á þeim svæðum. Þá var einnig rætt um íbúðakaup á Akureyri sem mörgum þátttakendum fannst að ætti að vera ofarlega á forgangslista. Skoða þarf betur stefnu styrkveitinga af ýmsum toga og jafnframt fara varlega og gæta að jafnræði.

Í framhaldi af þessum skipulagsfundi verður unnið með þær hugmyndir sem komið hafa fram. Á grundvelli niðurstöðu fundanna vinnur Framsýn – stéttarfélag svo tillögur að breytingum og bótum ef þörf er talin á. Hvernig þeirri vinnu verður háttað er alfarið í höndum Framsýnar.

Með kveðju og þökkum
Eyrún Valsdóttir
Dalla Ólafsdóttir
Henný Hinz
Ása Jónsdóttir

Deila á