Í vetur taka nemendur í 8.-10.bekk í Grunnskólanum á Þórshöfn þátt í verkefni sem ber yfirskriftina Heimabyggðin mín, nýsköpun, heilbrigði og forvarnir. Það er áhuga- og hugsjónarmannafélagið Landsbyggðarvinir í Reykjavík og nágrenni sem standa fyrir þessu.

 Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því, að hver einstaklingur fái sem best notið sín og hvetja hann til að hlúa að og vera stoltur af sinni heimabyggð.

Tilgangur verkefnisins er líka að stuðla að betri tilfinningu unga fólksins fyrir nærumhverfinu, meiri samkennd manna á milli og, að sýna öðrum virðingu, bæði mönnum og náttúru.

Í verkefninu er áhersla er lögð á að fá fram góðar hugmyndir sem stuðla að nýsköpun í heimabyggð, hvort sem það er á sviði velferðar og forvarna, atvinnulífs eða tekjuöflunar fyrir sveitar- eða bæjarfélagið. (tekið beint úr bréfi frá Landsbyggðarvinum)

Verkefnið skiptist í tvo hluta og er fyrri hluta lokið, þar unnu nemendur með sínar hugmyndir, útfærðu þær og skiluðu af sér ýmist í ritgerðar- eða powerpoint formi.

 Sigurbjörg Hulda Kristinsdóttir, 10.bekk fékk sérstaka viðurkenningu fyrir sitt verkefni, en hún setti upp árstíðabundna ferðamálapakka út á Langanes.

Verðlaunaafhending fór fram mánudaginn 28. janúar í Háskólanum í Reykjavík og var Huldu boðið þangað ásamt umsjónarkennara og foreldri, en vegna veðurs komust þau ekki suður.

Þar átti Hulda að kynna verkefnið sitt en Ólafur H. Harðarson, fundarstjóri kom framlagi viðurkenningarhafans frá Þórshöfn vel til skila.

Á þorrablóti Grunnskólans á Þórshöfn kynnti Hulda verkefnið sitt og voru henni þá afhent verðlaunin sem var bókin Gæfuspor, gildin í lífinu eftir Gunnar Hersvein og viðurkenningarskjal.

Í dómnefndaráliti sagði:

Á Þórshöfn er ung stúlka, sem að mati dómnefndar á skilið að fá viðurkenningu fyrir sína ritgerð.

Hún heitir Sigurbjörg Hulda Kristinsdóttir og stundar nám í 10.bekk grunnskólans þar. Ritgerðin heitir „Heimabyggðin mín“ og í henni lýsir hún ferð frá Þórshöfn og út á Font um fagra náttúru. Hún er með tillögur um vor, sumar, haust og vetrarferðir og hvað er hægt að skoða á mismunandi tímum árs. Tillagan er vel fram sett, uppörfandi og áhugaverð í alla staði. Hún gæti vel orðið hlekkur í menningartengdri ferðamennsku á þessu svæðinu. Vel útfærð hugmynd um hvernig hægt er að bæta ferðaþjónustu á Langanesi. Framsetning og málfar til fyrirmyndar.

Vinna við seinni hluta verkefnisins hefst eftir helgi en þar munu nemendur vinna saman að því að reyna að koma nokkrum hugmyndum sem komu fram í fyrri hlutanum í framkvæmd.

Sigurbjörg Hulda Kristinsdóttir sem stundar nám í 10.bekk grunnskólans fékk viðurkenningu fyrir sína ritgerð.

Deila á
kuti Fréttir