Framsýn hefur ráðið Egil Pál Egilsson fjölmiðlafræðing í sérverkefni í tilefni af 100 ára afmæli Verkakvennafélagsins Vonar. Verkefninu er ætlað að standa yfir í fjórar vikur og viðkemur útgáfu á afmælisblaði sem kemur út um miðjan maí.
Egill Páll er fæddur árið 1978 og hefur undanfarið starfað sem blaðamaður bæði á vef og prenti. Um er að ræða vefmiðilinn vikudagur.is, þingeyska héraðsfréttablaðið Skarp og Vikudag á Akureyri en allir miðlarnir eru í eigu Ásprents ehf. Egill Páll hefur einnig tekið að sér sérverkefni. Hann ritsýrði m.a. 90 ára afmælisriti Völsungs.
Rétt er að taka fram að Egill Páll tekur að sér aukin verkefni á þessu sviði og eru fyrirtæki, stofnanir, félög og einstaklingar hvattir til að hafa samband við hann þurfi þeir á þjónustu hans að halda. Hans sérsvið er textagerð ýmis konar; fréttatengt efni, kynningarefni, mannlífsefni, viðtöl o.fl. Hvort heldur sem er á íslensku eða ensku.
Egill Páll er kominn í tímabundið verkefni við ritun á afmælisblaði fyrir Framsýn en þann 28. apríl 2018 verða 100 ár liðin frá stofnun Verkakvennafélagsins Vonar, nú Framsýnar stéttarfélags.