Eftir Steindór J. Erlingsson
Reglulega berast fréttir af mikilli fjölgun öryrkja. Ríkisstjórnin hyggst bregðast við þróuninni með því að setja á starfsgetumat, sem miðar að því að draga úr nýgengi örorku og koma sem flestum þeirra sem nú þegar eru á örorkubótum aftur út á vinnumarkaðinn. Þetta er í sjálfu sér verðugt markmið, en mikilvægt er að félagslegt réttlæti verði innbyggt í kerfisbreytinguna svo hún bitni ekki illa á þeim sem metnir verða vinnuhæfir. Í þessari grein ætla ég að fjalla um íslensku tillögurnar, reynslu tveggja annarra landa af starfsgetumatinu og hvaða þýðingu það getur haft fyrir íslenska öryrkja.
Starfsgetumat á Íslandi
Undanfarin misseri hefur starfsgetumat af og til borðið á góma í fjölmiðlum hér á landi. Talsmenn hugmyndarinnar varpa henni yfirleitt fram sem allsherjarlausn á vanda öryrkja. Umræðan um þessa róttæku breytingu á högum öryrkja á Íslandi hefur hins vegar verið frekar yfirborðskennd. Þetta má berlega sjá í skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar sem lögð var fram í febrúar á síðasta ári.
Í skýrslunni er lagt til að samhliða starfsgetumatinu verði teknir upp tveir bótaflokkar, annars vegar fyrir þá sem hafa verulega skerta starfsgetu (26-50%) og hins vegar fyrir þá sem hafa litla sem enga starfsgetu (0-25%). Þeir sem lenda í fyrri flokknum fá hlutabætur. Allir sem koma nýir inn í kerfið þurfa að undirgangast starfsgetumat, ásamt þeim sem þurfa að endurnýja örorkumatið. Tveir hópar verða undanþegnir, þeir sem eru með varanlegt örorkumat og þeir sem eru 55 ára og eldri.
Þegar horft er á þessar tillögur vakna eðlilega ýmsar spurningar. Það er t.a.m. ekki hægt að lesa út úr skýrslunni á hverju matið verður byggt eða hversu stíft það verður. Ekkert mat er heldur lagt á hversu margir, sem teljast 75% öryrkjar í núverandi kerfi, verða áfram 75% öryrkjar, falla niður í flokk 50-74% öryrkja eða detta alveg út úr kerfinu. Það eina sem skýrslan segir um þetta er „að dæmi geta orðið um að einstaklingar, sem fengið hafi 75% örorkumat samkvæmt gildandi matskerfi sem gert er á læknisfræðilegum grundvelli, fái ekki greiðslur samkvæmt nýja kerfinu.“
Einnig er mikilvægt að huga að því hvernig þeim öryrkjum muni vegna á vinnumarkaðinum sem falla niður um bótaflokk eða detta út úr kerfinu. Nefndin bregst við þessum áhyggjum með því að benda „á mikilvægi þess að sveigjanleiki og hlutastörf séu til staðar fyrir einstaklinga sem ekki hafa fulla starfsgetu og því mikilvægt að tilskipanir ESB um bann við mismunun á vinnumarkaði verði innleiddar í lög á Íslandi.“ Í þessu sambandi er bent á að vinnuveitendur gegni mikilvægu hlutverki, án þess að það sé skilgreint nánar. Það lítur því út fyrir að ekki eigi að leggja neinar beinar skyldur á íslensk fyrirtæki þegar starfsgetumatið verður innleitt.
Starfsgetumat í Bretlandi og Hollandi
Einn alvarlegur annmarki hefur verið á umræðunni um starfsgetumat hér á landi. Ekkert hefur borið á umfjöllun um reynslu annarra landa af þessari kerfisbreytingu, hvorki í áðurnefndri skýrslu, skýrslu ÖBÍ Virkt samfélag (maí 2016) né fjölmiðlum. Í grein, sem birtist í byrjun mars í Fréttatímanum, reyndi ég að gera bragarbót á þessu. Þar kemur fram að ýmis lönd innan OECD hafa tekið upp starfsgetumat. Þar má nefna Bretland, Holland Ástralíu, Noreg, Svíþjóð og Þýskaland. Í greininni er lögð sérstök áhersla á fyrstu tvö löndin.
Bretland og Holland eiga það sameiginlegt að starfsgetumatið er stíft (sjá myndir 1 og 3 í FT-grein) og að allir öryrkjar voru skikkaðir í matið. Það er hins vegar einn grundvallar munur á löndunum. Meðan breskir öryrkjar, sem metnir eru vinnuhæfir samkvæmt starfsgetumati, þurfa alfarið á treysta á tilskipun ESB um bann við mismunun á vinnumarkaði, eru ríkar skyldur lagðar á hollensk fyrirtæki. Til marks um þetta segja fræðimenn (grein 1 og 2) að árangurinn þar í landi byggist á því að vinnuveitendur eru hvattir til þess að eyða meiri tíma og orku í hvatningu og endurhæfingu eftir að örorka er orðin staðreynd. Enn fremur bera hollensk fyrirtæki alfarið ábyrgð á örorkugreiðslum starfsmanna sinna fyrstu árin.
Einnig er rétt að geta þess að ólíkt Bretum, þá hafa Hollendingar tvo bótaflokka, fulla örorka og hlutfallslega örorku (sjá mynd 3 í FT-grein). Það virðist því nokkuð ljóst að íslensku skýrsluhöfundarnir hafi horft til Hollands varðandi bótaflokkana. Þeir virðast hins vegar ekki hafa fylgt fordæmi þeirra þegar kemur að ábyrgð fyrirtækja og virðast, eins og Bretar, ætla að treysta alfarið á tilskipun ESB, þ.e. ef Alþingi samþykkir hana.
Eftir stendur spurningin hvernig einstaklingum í þessum löndum, sem metnir eru vinnuhæfir eftir starfsgetumat, gengur að fá vinnu. Samkvæmt hollenskri rannsókn er erfitt að leggja mat á hvort þær konur sem dottið hafa niður um bótaflokk eða út úr bótakerfinu eftir starfsgetumat fái vinnu. Kerfisbreytingin hefur hins vegar líklega stuðlað að aukinni atvinnuþátttöku karla sem búa við slæmt heilsufar, en á sama tíma hefur fjöldi þeirra karla sem hvorki hafa atvinnu né örorkubætur aukist.
Önnur rannsókn varpar frekara ljósi á ástandið í Hollandi, auk Danmerkur og Bretlands. Þar er fjallað um atvinnumöguleika þeirra einstaklinga sem eru 50 ára eða eldri þegar þeir voru metnir hæfir til þess að vinna. Í löndunum þremur er ekkert sem bendir til þess að möguleiki þessa fólks til atvinnuþátttöku aukist. Það eru hins vegar vísbendingar um að þessir einstaklingar flytjist af örorkubótum yfir á atvinnuleysisbætur.
Staðan í Bretlandi er vægast sagt afleit. Í nýrri rannsókn segir að ekki sé að jafnaði hægt að tengja starfsgetumatið við aukinn flutning einstaklinga með langvarandi heilsufarsvanda út í atvinnulífið. Það tengdist hins vegar flutningi fólks með geðraskanir frá því að vera öryrkjar yfir í atvinnuleysi. Önnur rannsókn, eftir sömu höfunda, tengir starfsgetumatið við aukningu á sjálfsvígum, geðheilbrigðisvandamálum og ávísunum þunglyndislyfja. Ákvæði í breskum lögum sem banna mismunum á vinnumarkaði virðast því í lítið hjálpa breskum öryrkjum.
Starfsgetumat og nýfrjálshyggja
Ástandið í Bretlandi kemur ekki á óvart þegar horft er á úttekt þriggja fræðimanna á tilraunum Breta, Ástrala og Bandaríkjamanna til þess að auka atvinnuþátttöku öryrkja. Þar kemur fram að stefnumótun þessara landa einblíni fyrst og fremst á nálganir nýfrjálshyggjunnar og skyggi þar með á félagslegar nálganir sem miða að því að yfirvinna kerfislægar hindranir sem öryrkjar standa frammi fyrir.
Eins og fram kemur í íslenskri rannsókn (myndir 2 og 3) eiga þessi þrjú lönd, ásamt Kanada og Nýja-Sjálandi, það sameiginlegt að þar ríkir sterk einstaklingshyggjuhefð. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð eru áhrif einstaklingshyggjunnar miklu minni. Þetta gæti skýrt af hverju Norðmenn settu á laggirnar óumdeilt starfsgetumatskerfi árið 2008. Raunar búa þeir við svo örlátt velferðarkerfi að þeim hefur gengið illa að fækka öryrkjum. Holland, Finnland og Írland mynda hóp sem er þarna mitt á milli. Þetta gæti mögulega skýrt af hverju Hollendingar gleymdu ekki, þó þeir búi við stíft starfsgetumatskerfi, að leggja skyldur á herðar fyrirtækjum landsins.
Hvar stöndum við Íslendingar með tilliti til einstaklingshyggjunnar? Við tilheyrum hópi hinna enskumælandi einstaklingshyggjulanda. Þó það teljist til félagslegs réttlætis að undanskilja þá sem eru með varanlegt örorkumat og þá sem eru 55 ára og eldri, þá þarf ekki að koma á óvart, í ljósi rannsóknarinnar, að íslensku skýrsluhöfundarnir virðast að öðru leyti ætla fylgja áherslum nýfrjálshyggjunnar eftir. Það þýðir að í stað þess að deila ábyrgðinni á kerfisbreytingunni með íslenskum fyrirtækjum og samfélaginu í breiðari skilningi, virðist hún öll eiga að hvíla á herðum öryrkja. Við þessu þarf að sporna.
Niðurlag
Ég tel brýnt að verkalýðshreyfingin leggi öryrkjum lið í baráttunni sem er framundan, enda litast íslensku starfsgetumatstillögurnar af því mikla félagslega óréttlæti sem einkennir nýfrjálshyggjuna. Ef farið verður að tillögum nefndarinnar gætum við á endanum staðið frammi fyrir þeim birta raunveruleika sem breskir öryrkjar upplifa. Enn er ekki komið í ljós hvort frumvarp um starfsgetumat verður lagt fram á þessu þingi. Þrátt fyrir það tel ég brýnt að fá sem allra fyrst svör við þessum spurningum:
- Hvað er gert ráð fyrir að margir 75% öryrkjar muni missa bætur?
- Hvað er gert ráð fyrir að margir 75% öryrkjar verði metnir 50% öryrkjar?
- Hver er áætluð atvinnuþátttaka þeirra sem missa alfarið bætur?
- Hver er áætluð atvinnuþátttaka þeirra sem fá 50% örorku?
- Hvað er gert ráð fyrir að margir einstaklingar úr báðum hópum muni að loknum atvinnuleysisbótum enda á framfærslu sveitafélagsins?
Vonandi getur verkalýðshreyfingin hjálpað öryrkjum að þrýsta á stjórnvöld til þess að fá svör við þessum mikilvægu spurningum.
Höfundur er öryrki og vísindasagnfræðingur