Framsýn kallar eftir kostnaðarmati

Framsýn hefur ákveðið að kalla eftir kostnaðarmati frá Sambandi ísl. sveitarfélaga á kjarasamningi leik- og grunnskólakennara sem undirritaður var fyrir helgina til hliðsjónar við kjarasamning SGS og SÍS. Eins og kunnugt er gekk Starfsgreinasamband Íslands frá kjarasamningi við sveitarfélögin vorið 2024 til fjögurra ára sem nær m.a. til almennra starfsmanna í leik- og grunnskólum. Framsýn á aðild að kjarasamningnum í gegnum Starfsgreinasambandið. Ef marka má fjölmiðlaumræðuna eru kennarar að fá umtalsvert meiri launahækkanir en samstarfsfólk þeirra í leik- og grunnskólum sem er innan SGS, það er þrátt fyrir að flest ef ekki öll sveitarfélögin í landinu hafi innleitt jafnlaunastefnu sem byggir á því að allt starfsfólk sveitarfélaganna njóti jafnra launa og sömu kjara og réttinda fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Framsýn væntir þess að SÍS svari þessu erindi á næstu dögum enda mikilvægt að þessar upplýsingar liggi fyrir sem fyrst.

Deila á