Formaður Framsýnar gestur á fundi um samgöngumál

Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar boðaði til fundar í morgun á Akureyri um atvinnu- og samgöngumál. Formaður Framsýnar, Aðalsteinn Árni Baldursson, var einn af þremur frummælendum á fundinum sem fór vel fram. Fullt var út úr dyrum.  Eftir framsögurnar var boðið upp á pallborðsumræður. Góðar umræður sköpuðust um málefni fundarins. Hér má lesa ræðu formanns Framsýnar.

Ágætu jafnaðarmenn

Í nútímasamfélagi eins og Íslandi verða samskiptatækni og samgöngur sífellt mikilvægari hluti lífsgæða og má fullyrða að samgöngur og þeir þættir sem undir þær falla, vegamál, fjarskipti, ferða-, flug- og siglingamál snerti líf okkar allra á degi hverjum.

Þegar við bætist mikil verðmætasköpun í formi útflutningsafurða og skýlaus krafa um alþjóðlega samkeppnishæfni í menntun, atvinnutækifærum sem og almennum gæðum, verða samgöngur og samskipti að mikilvægum hornsteinum sem við þurfum að hlúa að til framtíðar.

Höfum í huga að:

  • Greiðar samgöngur eru atvinnumál
  • Greiðar samgöngur eru heilbrigðismál
  • Greiðar samgöngur eru byggðamál
  • Greiðar samgöngur eru jafnréttismál
  • Greiðar samgöngur eru kjaramál (Svo eitthvað sé nefnt)

Því þarf ekki að koma sérstaklega á óvart að fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar 2020 kom fram í öllum helstu skoðanakönnunum meðal kjósenda að tryggar samgöngur væru eitt mikilvægasta mál kosninganna.

Áherslur kjósenda voru eðlilega misjafnar eftir búsetu varðandi almenningssamgöngur, viðhaldi vega eða þróun samgöngukerfisins.

Meðan íbúar á landsbyggðinni kölluðu almennt eftir betra vegakerfi og góðum flugsamgöngum innanlands mæltu kjósendur á höfuðborgarsvæðinu fyrir greiðari samgöngum innan svæðisins s.s. með lagningu borgarlínu.

Almenningssamgöngur hafa verið og verða áfram mikilvæg stoð byggðar í landinu enda ætlað að tengja þær saman og auka aðgengi og jafnræði íbúa að þjónustu burt séð frá búsetu.

Til framtíðar er mikilvægt að þjónustan styrkist og þróist í takt við breyttar þarfir og nýti sér um leið þá möguleika sem tækninýjungar fela í sér.

Aukin notkun og hlutdeild almenningssamgangna er að auki umhverfisvæn og stuðlar að því að markmið stjórnvalda í loftslagsmálum náist.

Íslendingar geta ekki setið á varamannabekknum og látið sig lofslagsmál engu varða er tengist ekki síst samgöngumálum. Ég nefni sem dæmi, við eigum ekki að láta útgerðir skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísland komast upp með að fylla firði landsins með menguðum útblæstri og státa að því á sama tíma að Ísland sé eitt hreinasta land í heimi. Er ekki eitthvað bogið við svona framsetningu?

Ágætu fundarmenn!

Umræðan um samgöngumál og mikilvægi þeirra er ekki alltaf á háu plani. Það er t.d. afar þreytandi fyrir mörg okkar sem höfum valið að búa á landsbyggðinni að heyra þingmenn, jafnvel ráðherra og „svokallaða“ sérfræðinga á samfélagsmiðlum tala endalaust um kjördæmapott detti einhverjum þingmanni/ráðherra það í hug að tala fyrir bættum vegasamgöngum utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta virðist vera lenska, því miður.

Tökum dæmi; Hvenær heyrið þið t.d. almenning með póstnúmer utan Reykjavíkur tala um Sundabrautina eða borgarlínu sem kjördæmapott  þingmanna í 101 Reykjavík? Það er þrátt fyrir að framkvæmdirnar komi til með að kosta ríkissjóð tugi milljarða enda verði þær að veruleika.

Á móti nefni ég tvö þýðingarmikil samgöngumannvirki hér norðan heiða sem þegar hafa sannað sitt notagildi, það er Vaðlaheiðargöng annars vegar og Héðinsfjarðargöng hins vegar. Þeir sem öðrum fremur fóru fyrir þessum verkefnum voru, þingmennirnir og ráðherrarnir Steingrímur J. Sigfússon og Kristján L. Möller. Þeir ásamt fleirum sem fóru fyrir verkefninu hafa þurft að sitja undir árásum úr ýmsum áttum sem og íbúar á Norðurlandi. Talað hefur verið um spillingu og kjördæmapott.

Fyrir Alþingiskosningar þegar Vaðlaheiðargöng voru í burðarliðnum mátti til dæmis heyra þingmann úr Hafnarfirði, sem kenndur er við Viðreisn tala fyrir mislægum gatnamótum í Hafnarfirði á kostnað ríkissjóðs um leið og viðkomandi hnýtti í þá þingmenn sem hefðu komið Vaðlaheiðargöngum í farveg, það væri kjördæmapot á háu stigi.

Það átti hins vegar ekki við um þingmanninn sjálfan sem taldi rétt að Vegagerðin kæmi að myndarlegri uppbyggingu samgöngumannvirkja í Hafnarfirði.  Að sjálfsögðu átti ríkið að greiða kostnaðinn af framkvæmdinni að mati þingmannsins.

Nefna má annað dæmi tengt Vaðlaheiðargöngum; Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), taldi einnig ástæðu til að tala framkvæmdina niður sem féll í grýttan jarðveg hjá heimamönnum.

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi, nú SSNE, gerðu alvarlegar athugasemdir við framgöngu FÍB í málinu með yfirlýsingu þar sem bent var á að verulegur hluti þjóðarframleiðslunnar kæmi frá byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins og íbúum landbyggðarinnar þætti mikilvægt að njóta hluta afrakstursins. Í yfirlýsingunni voru forsvarsmenn FÍB jafnframt minntir á það, að af hverjum tveimur krónum, sem íbúar í Norðausturkjördæmi greiddu í skatta, léti nærri að aðeins ein króna skilaði sér aftur til baka í formi framlaga til nauðsynlegrar grunnþjónustu, vegaframkvæmda og annarra sameiginlegra þarfa. Þeirri krónu, sem yrði eftir á höfuðborgarsvæðinu, væri varið til þjónustu og uppbyggingar innviða á því svæði.

Framsýn stéttarfélag tók heilshugar undir samþykkt Eyþings/SSNE með ályktun og spurði hvort það væri ekki markmið FÍB að standa vörð um hagsmuni allra bifreiðaeigenda á Íslandi burt séð frá búsetu.

Ég kalla eftir viðhorfsbreytingu hvað þetta varðar. Það er að sjálfsögðu eðlilegt að menn hafi mismunandi skoðanir á samgöngumálum enda mikilvægur þáttur í lífi okkar allra en verum málefnaleg í umræðunni.

Meðan oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi talar fyrir hálendisvegi milli landshluta og styttingu þjóðvegar 1 milli Akureyrar og Reykjavíkur tala ég sem formaður stéttarfélags í Þingeyjarsýslum fyrir bættum flugsamgöngum um Húsavíkurflugvöll og greiðari samgöngum frá Eyjafjarðarsvæðinu austur um land þar sem núverandi ástand vegakerfisins er langt frá því að vera viðunandi með hálfónýtum og úrsérgengnum einbreiðum brúm.

Þjóðvegurinn og tengibrautir þola ekki lengur ört vaxandi ferðaþjónustu og þungaflutninga enda dæmi um að búið sé að loka brúm á fjölförnum vegum fyrir þungaumferð.

Fyrir mér eru þetta allt mikilvægar samgöngubætur en við verðum að forgangsraða með þarfir íbúa og atvinnulífsins í huga á hverjum stað, það er með sanngjörnum og eðlilegum hætti.

Tökum höndum saman, gerum íbúum landsins jafnt undir höfði og byggjum upp skilvirkar og vistvænar almenningssamgöngur um allt land. Byggjum upp Borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu með góðum tengingum við landsbyggðina ásamt Byggðalínu sem tengir vegakerfin saman líkt og æðakerfi líkamans. Greiðar samgöngur eru lykillinn að því að halda landinu í byggð.

Ágætu félagar!

Hvað vegakerfið varðar geri ég mér fulla grein fyrir því að það verður ekki byggt upp nema komi til vegatollar á ákveðnum leiðum sem síðan fjari út sbr. Hvalfjarðargöng. Þetta kerfi viðgengst víða erlendis.

Hins vegar geri ég þá kröfu að aðgengi að almennri þjónustu á vegum ríkisins verði gerð aðgengilegri fyrir þegna þessa lands sem oft á tíðum þurfa að ferðast um langan veg til að sækja sér m.a. heilbrigðisþjónustu, menntun og aðra þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð.

Liður í því er að bjóða upp á öflugar almenningssamgöngur með það að markmiði að það kosti ekki augun úr að ferðast milli landshluta, hvort heldur það er í lofti eða á þjóðvegum landsins.

Þá eru fyrirtækin á landsbyggðinni, mörg hver, að sligast undan stjarnfræðilega háum flutningskostnaði sem veikir samkeppnisstöðu þeirra verulega í samanburði við sambærileg fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Þungaskattur, skattar á eldsneyti og endalausar álögur á flutninga koma sér auk þess afar illa fyrir íbúa í hinum dreifðu byggðum landsins sem þurfa á aðföngum að halda.

Ég treysti Samfylkingunni til að taka á þessu máli enda væntanlega á leiðinni í næstu ríkisstjórn m.v. skoðanakannanir og umræðuna á vinnustöðum þar sem talað er fyrir breytingum á Alþingi.

Ég nefndi í upphafi að greiðar samgöngur vörðuðu meðal annars heilbrigðismál og kjaramál. Íbúar á landsbyggðinni hafa haft ákveðin skilning á hagræðingu í heilbrigðiskerfinu.

En því miður hafa þeir mátt taka sparnað ríkisins, sem þannig hefur sparast, á kassann. Það er þrátt fyrir loforð stjórnvalda um annað. Stjórnvöld lofuðu svokölluðum mótvægisaðgerðum til að mæta auknum kostnaði viðkomandi íbúa í skjóli hagræðingar stjórnvalda.

Ég nefni, skurðstofu HSN á Húsavík sem var lokað á sínum tíma og þar með fæðingardeildinni. Nú eru sjúklingar sendir til Akureyrar eða Reykjavíkur þurfi þeir á þessari þjónustu að halda með tilheyrandi óþægindum og kostnaðarauka fyrir íbúa á svæðinu. Sömu sögu er hægt að segja víða um land. Ég auglýsi eftir mótvægisaðgerðum stjórnvalda.

Ef marka má umræðuna innan Starfsgreinasambands Íslands um þessar mundir liggur fyrir að ein helsta krafa sambandsins í komandi kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld verður að jafna aðgengi fólks að heilbrigðiskerfinu. Við getum ekki lengur horft upp á að láglaunafólk og öryrkjar þurfi að neita sér um læknisþjónustu vegna þess að þeir hafi ekki aðgengi eða efni á slíku.

Ég tek heilshugar undir með formanni Samfylkingarinnar sem hefur sagt.

Öryggi er tilfinning sem er mikils virði. Við höfum öll persónulega reynslu af heilbrigðiskerfinu. Þegar það virkar sem skyldi þá veitir það fólki öryggi. Og það er á okkar viðkvæmustu stundum sem reynir á — þegar eitthvað kemur upp á hjá okkur sjálfum eða fólkinu sem stendur okkur næst. Þá reynir á hvort við búum við sterka velferð.“

Um leið og ég þakka gott hljóð þá skulum við ekki gleyma því að Samfylkingin stendur fyrir jöfnuð og sterka velferð, látum verkin tala. Takk fyrir.

Deila á