Árangursríkur fundur með Qair Ísland og Arctic Hydro

Í kjölfar hinna miklu og jákvæðu tíðinda um styrkingu flutnings- og dreifikerfis raforku á Norðausturlandi sem Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála, kynnti á fundi á Þórshöfn þann 6. nóvember sl. hittust forsvarsmenn Framsýnar stéttarfélags og orkufyrirtækjanna Qair Ísland og Arctic Hydro á fundi á Húsavík í gær, 2. desember. Orkufyrirtækin starfrækja nú þegar tvær virkjanir á svæðinu, sem eru vatnsaflsvirkjanirnar Köldukvíslarvirkjun (2,65 MW) í Tjörneshreppi og Þverárvirkjun í Vopnafirði (6 MW). Ennfremur eru félögin með allnokkra virkjanakosti í þróun og eru þeir m.a. vindorkukosturinn Hnotasteinn (216 MW) í Norðurþingi, ásamt vatnsaflskostunum Árskógsvirkjun (5 MW) í Dalvíkurbyggð, Tunguárvirkjun (2 MW) í Þistilfirði og Staðarárvirkjun (1 MW) í Bakkafirði auk þróunarkosta í Eyjafjarðarsveit.

Ljóst er að umrædd styrking flutnings- og dreifikerfis hefur mikil og jákvæð áhrif á kosti félaganna sem var helsta umræðuefni fundarins. Ennfremur er ljóst að fyrirhuguð verkefni félaganna eru afar mikilvæg fyrir styrkingu kerfanna.  Fyrirhugaður 33 kV jarðstrengur RARIK frá Vopnafirði til Þórshafnar mun efla til muna raforkuöryggi og möguleika til atvinnuuppbyggingar svæðisins. Ný 132 kV háspennulína Landsnets milli Kópaskers og Þórshafnar mun einnig stórauka afhendingaröryggi raforku, stuðla að atvinnuuppbyggingu og enda hvimleiða þörf eystri byggðar að notast við jarðefnaeldsneyti. Verkefni félaganna leika lykilhlutverk í þróun flutnings- og dreifikerfisins á svæðinu þar sem nýjar tekjur af flutningi væntrar orkuframleiðslu aðstoða fjárhagslega við fyrirhugaða styrkingu og geta ennfremur flýtt talsvert fyrir þeim framkvæmdum.

Sammæltust fundargestir um mikilvægi uppbyggingar svæðisins og bráðrar þarfar nýs orkuframboðs sem samnefnara verðmætasköpunar og atvinnuuppbyggingar. Hvað það varðar hvetur Framsýn ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála til að gera allt til að hraða uppbyggingu mögulegra orkuverkefna í Þingeyjarsýslum til að svara kalli atvinnulífsins. Eins og fram hefur komið á heimasíðu stéttarfélaganna er mikill áhugi meðal fjárfesta að koma að uppbyggingu á atvinnustarfsemi í Norðurþingi sem er virkilega ánægjulegt ekki síst í ljósi þess að starfsemi PCC liggur niðri.

Fundarmenn voru sammála um að fundurinn hafi verið árangurríkur í alla staði en hann fór fram í fundarsal stéttarfélaganna. Eftirtaldir sátu fundinn, Ásgeir Margeirsson, stjórnarformaður Qair Ísland, Skírnir Sigurbjörnsson, framkvæmdastjóri Arctic Hydro, Friðjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Qair Ísland og Kristinn Pétursson, ráðgjafi og fyrrum alþingismaður. Frá Framsýn tóku þátt í fundinum, Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar, Aðalsteinn J. Halldórsson starfsmaður stéttarfélaganna og stjórnarmennirnir, Torfi Aðalsteinsson og Kristján M. Önundarson.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Soroptimistar – forvarnir í forgrunni

Roðagyllum heiminn – Appelsínugulum fána er flaggað.

Á hverju ári standa Soroptimistar fyrir átaki gegn kynbundnu ofbeldi.  Hér á landi höfum við kosið að kalla það „Roðagyllum heiminn“ (e. Orange the World). 

16 daga átakið gegn kynbundnu ofbeldi, ,,Roðagyllum heiminn“,  sem verður dagana 25. nóvember til 10. desember, er að þessu sinni beint að ofbeldi á netinu. Kjósa Soroptimistar að kalla það ,,Þekktu rauðu ljósin, um ofbeldi á netinu”. Við Skrifstofu stéttarfélaganna hangir nú appelsínugulur fáni í tilefni af þessu átaki Soroptimista.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Jakob heiðraður!

34. þing Sjómannasambands Íslands fór fram á Grand Hótel í Reykjavík 30. og 31. október. Nánar má lesa um þingið hér.

Formaður sjómannadeildar Framsýnar, Jakob Hjaltalín sat fundinn fyrir hönd síns félags en hann hefur ákveðið að þetta hafi verið hans síðasta sjómannaþing.

Hér má sjá myndir hvar Jakob er heiðraður fyrir góð störf í þágu sjómanna. Ásamt honum eru Valmundur Valmundsson formaður Sjómannasambandsins á myndinni og Vignir S. Maríasson sem einnig var að sitja sitt síðasta þing.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Vel heppnað þing LÍV

34. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna lauk föstudagin 31. október síðastliðinn. Það var haldið á Grand Hótel í Reykjavík.

Aðalsteinn J. Halldórsson, formaður stjórnar deildar verslunar- og skrifstofufólks Framsýnar sat fundinn. Hann náði kjöri sem varamaður í stjórn Landsambandsins.

Nánar má lesa um þingið hér.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Vinnumálastofnun með viðveru á Húsavík

Vinnumálastofnun mun á næstu vikum hafa aukna viðveru á Húsavík. Starfsfólk þeirra mun hafa aðstöðu á Skrifstofu stéttarfélaganna, Garðarsbraut 26, venju samkvæmt. Við hverjum atvinnuleytendur að koma við hjá þeim með þær spurningar sem þeir kunnu að hafa.

Um er að ræða dagana 12. nóvember, 26. nóvember og 10. desember, frá 10.00 um morguninn til 12.00 á hádegi eða eins og þurfa þykir.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Þing SGS yfirstandandi

10. þing Starfsgreinasambands Íslands stendur ný yfir í Hofi á Akureyri. Um 130 fulltrúar frá 18 aðildarfélögum sambandsins eiga seturétt á fundinum en þingið hófst í gær og klárast á morgun, föstudag. Á myndinni má sjá þrjá af sjö fulltrúum Framsýnar á þinginu, Jónínu, Kristján og Maríu. Auk þeirra sitja þingið Guðný Gríms, Aðalsteinn Árni, Agnes Einars og Ósk Helgadóttir. 

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Formaður Framsýnar í viðtali á Samstöðinni um PCC

Formaður Framsýnar var á dögunum gestur Björns Þorlákssonar á Samstöðinni. Var þar farið yfir atvinnumál á starfssvæði Framsýnar og sérstaklega stöðunna á PCC á Bakka ásamt því að fara almennt yfir stöðuna hér fyrir norðan og á landsbyggðinni. Hægt er að sjá viðtalið með því að smella hér.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Vinnumálastofnun með viðveru á Húsavík

Starfsfólk Vinnumálastofnunnar verður á Húsavík miðvikudaginn 8. október milli 9:00 og 13:00 á Skrifstofu stéttarfélaganna. Áhugasamir um að ræða beint við starfsfólk vinnumálastofnunnar býðst að koma við á þessum tíma og ræða sín mál.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Blóðbankabíllinn heimsækir Húsavík – gefðu blóð og bjargaðu lífi

Blóðbankabíllinn verður við Orkuna á Húsavík þriðjudaginn 16. september frá kl. 11:00 til 16:00. Þar gefst íbúum og gestum tækifæri til að leggja sitt af mörkum með því að gefa blóð og stuðla þannig að björgun mannslífa.

Allir eru hjartanlega velkomnir. Blóðbankinn minnir á að það tekur einungis um 30 mínútur að gefa blóð – en áhrifin geta verið lífsbjargandi.

Blóðgjöf er lífgjöf.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Bústaðurinn í Dranghólaskógi laus til leigu

Við viljum minna á að sumarbústaður Framsýnar í Dranghólaskógi er laus til leigu í september og mögulega lengur ef veður leyfir. Bústaðurinn hefur verið í notkun í allt sumar og gengið vel en síðasti leigudagur sumartímabilsins er í dag. Hægt er að bóka bústaðinn með því að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna í síma 464-6600 eða senda tölvupóst á alli@framsyn.is .

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Laus vika í Flókalundi

Óvænt losnaði síðasta orlofsvikan í Flókalundi en hún hefst á morgun. Tímabilið er 22. ágúst til 29. ágúst. Fyrstur kemur fyrstu fær!

Til að bóka hafið samband í síma 464-6600 eða með því að senda tölvupóst á alli@framsyn.is

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Nýtt þrifagjald í Þorrasölum

Frá og með 1. júní er nýtt gjald á þrifum íbúðanna í Þorrasölum. 15.000 mun kosta að fá íbúðir þrifnar. Ef leigjendur hafa ekki þrifið eða gert það illa er það gert á þeirra kostnað og mun það kosta 25.000 krónur. Áfram verður ekki hægt að panta þrif frá júní til og með ágúst.

Auk þess verður ein reglubreyting á leigu íbúðanna í Þorrasölum frá og með 1. júní, það er að segja að þá verður ekki lengur hægt að leigja íbúðirnar frá sunnudögum. Eftir sem áður verður hægt að hefja leigu frá mánudegi til föstudags.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Lausar vikur í sumarbústöðum í sumar

Búið er að úthluta sumarbústöðum sumarið 2025. Umsóknir voru óvanalega margar þetta árið. Þrátt fyrir þessa miklu aðsókn eru nokkrar vikur ennþá lausar sem eru þá lausar til úthlutunar þeim sem vilja. Fyrstir koma fyrstir fá.

Vikurnar eru eftirfarandi:

Mörk Grímsnesi
15 ágúst-22 ágúst

Ássel 3, Kjarnaskógi
15. ágúst – 22. ágúst
22. ágúst – 29. ágúst

Illugastaðir, Fnjóskadal
7. ágúst til 14. ágúst
21. ágúst til 28. ágúst



Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Vinnsla umsókna í fullum gangi

You need to add a widget, row, or prebuilt layout before you’ll see anything here. 🙂

Sennilega hafa aldrei komið jafn margar umsóknir um orlofshús eins og raunin er í ár, en umsóknarfresturinn rann út á miðnætti 10. apríl. Nokkurn tíma mun taka að vinna úr umsóknunum en niðurstöður ættu þó að liggja fyrir í næstu viku.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir

Umsóknarfrestur til og með 10. apríl

Við minnum á að umsóknarfrestur til að sækja um orlofshús er til og með 10. apríl. Umsóknareyðublað má nálgast hér. Einnig fylgir umsóknareyðublaðið með fréttabréfi stéttarfélaganna sem hægt er að nálgast í verslunum á starfssvæðinu. Umsóknum skal skilað á Skrifstofu stéttarfélaganna eða á netfangið alli@framsyn.is.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson Fréttir