Bankastjóri = 12 fiskvinnslukonur

Framsýn hefur staðið fyrir tveimur kynningarfundum í dag um sáttatillögu ríkissáttasemjara. Fyrri fundurinn var kl. 17:00 og sá síðari kl. 20:00. Ljóst er að félagsmenn eru ánægðir með baráttu félagsins sem skilaði því að kjarasamningurinn frá 21. desember 2013 var felldur víða um land. Afraksturinn er sáttatillaga ríkissáttasemjara sem nú er til kynningar og atkvæðagreiðslu. Hún felur í sér hækkun á orlofs- og desemberuppbót auk eingreiðslu kr. 14.600,- fyrir janúar. Fundarmenn töldu sáttatillöguna skref í rétta átt. Þrátt fyrir viðbótina væru laun verkafólks áfram til skammar fyrir land og þjóð. Sáttatillagan hefði aldrei komið til nema fyrir baráttu, sérstaklega Framsýnar og Verkalýðsfélags Akraness sem stóðu vaktina til enda. Stuðningur þriggja annara félaga innan SGS hefði einnig skipt máli, Bárunnar, Drífanda og Verkalýðsfélags Grindavíkur.

Fundarmenn gerðu að umræðuefni hækkanir í fjármálageiranum og nefndu sem dæmi hækkanir hjá bankastjóra Íslandsbanka Birnu Einarsdóttur sem hækkaði úr 31,5 milljónum króna í 36,4 milljónir milli 2012 og 2013. Hækkunin nemur 15,6 prósentum og samsvarar því að mánaðarlaun hafi farið úr rúmum 2,6 milljónum króna í rúmar 3 milljónir á mánuði. Þess má geta að Birna er einn af forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins sem taldi aðeins svigrúm fyrir 2,8% launahækkun til verkafólks. Ekki þarf að undra að heitar umræður hafi verið á fundunum í dag um siðleysið sem viðgengst á íslenskum vinnumarkaði varðandi kaup og kjör fólks. Í samanburði má geta þess að bankastjórinn hefur í laun á mánuði eins og 12 starfsmenn í fiskvinnslu með bónus.

Félagsmenn Framsýnar sáu ástæðu til að gleðjast í dag yfir baráttu félagsins fyrir bættum kjörum verkafólks. Ljóst er félagið hefur sjaldan eða aldrei staðið eins sterkt og um þessar mundir, ekki síst vegna staðfestu félagsins í kjaramálum. Það staðfesta einnig fjölmargir póstar með baráttukveðjum frá verkafólki víðs vegar um landið.

Margar spurningar komu fram á fundunum, m.a; Af hverju getur verkalýðshreyfingin ekki sameinast um að berjast fyrir hækkun lægstu launa og hækkun persónuafsláttar?

María og Helga voru að sjálfsögðu á fundinum í kvöld en þær komu snemma til að fá sæti.

Beðið eftir því að fá að kjósa um sáttatillögu ríkissáttasemjara í dag á Skrifstofu stéttarfélaganna.

Hér má sjá konur hamast í snyrtingu. Sem dæmi má nefna að bankastjóri Íslandsbanka hefur sömu laun á mánuði eins og 12 konur í fiskvinnslu. Talað var um alvarlegt siðleysi á félagsfundum sem Framsýn hélt í dag um kjaramál og sáttatillögu ríkissáttasemjara sem lögð var fram 21. febrúar 2014.

Deila á