Tillaga kjörnefndar samþykkt

Um síðustu helgi rann út frestur félagsmanna til að koma með tillögur um félagsmenn í stjórnir og ráð á vegum Framsýnar, stéttarfélags fyrir næsta kjörtímabil sem eru tvö ár. Ekki bárust tillögur og skoðast því tillaga kjörnefndar sem lögð var fram fyrir nokkrum vikum samþykkt. Afar auðvelt hefur verið að fá fólk til að starfa fyrir félagið enda um að ræða gefandi, fræðandi og lifandi starf í þágu verkafólks og launþega víðs vegar um landið.

Nokkrir nýir og kraftmiklir einstaklingar, sem flestir eru ungir að árum, koma til starfa enda hefur töluvert verið gert til að auka áhuga ungs fólks á starfi Framsýnar. Sem dæmi má nefna; Einar Magnús Einarsson trúnaðarmann starfsmanna í Silfurstjörnunni í Öxarfirði sem kemur inn í varastjórn en hann var áður í trúnaðarmannaráði félagsins. Daríu Machnikowsku sem starfar hjá Viðbót á Húsavík, Eystein Heiðar Kristjánsson sem starfar hjá Bílaþjónustunni á Húsavík og Önnu Romonsku trúnaðarmann starfsmanna GPG- á Raufarhöfn. Allt magnað og áhugasamt fólk.

Stóru tíðindin eru svo þau að Ósk Helgadóttir starfsmaður og trúnaðarmaður starfsmanna í Stórutjarnarskóla tekur við varaformennsku í Framsýn af Kristbjörgu Sigurðardóttir sem skilað hefur mjög góðu starfi fyrir Framsýn í gegnum tíðina.

Ósk Helgadóttir mun taka við varaformennsku á næsta aðalfundi Framsýnar.

Daría Machnikowska sem hér er með nokkrum vinkonum er mikil stuðbolti.

Eysteinn Heiðar Kristjánsson kemur nýr inn í trúnaðarmannaráð Framsýnar.

Anna Romanska kemur einnig ný inn í trúnaðarmannaráð Framsýnar, hér er hún með samstarfsfélaga sínum hjá GPG-Fiskverkun á Raufarhöfn.

Einar Magnús er hér ásamt Kára Kristjáns og stjórnarmönnum í ASÍ-UNG. Maggi fer úr trúnaðarmannaráði í varastjórn Framsýnar.

Deila á