Framsýn mótmælir því að dómþing leggist af á Húsavík í sumar

Til stendur að dómþing leggist af á Húsavík í sumar og flytjist til Akureyrar með verulegri óhagræðingu og kostnaðarauka fyrir íbúa og stofnanir svæðisins. Regluleg dómþing hafa verið haldin í Þingeyjarsýslum allt frá árinu 1262. Bréf Framsýnar til ráðherra er meðfylgjandi þessari frétt. Þar er m.a. skorað á ráðherra að afturkalla boðaðar breytingar þegar í stað.

Innanríkisráðuneytið 
Hr. Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra
Skuggasundi
150 Reykjavík

 Athugasemdir Framsýnar- stéttarfélags við breytingar á reglugerð um dómþinghár og þingstaði, nr. 395 29. júní 1998 

Framsýn- stéttarfélag Þingeyinga gerir alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða breytingar á reglugerð um dómþinghár og þingstaði, nr. 395 29. júní 1998, sbr. reglugerð nr. 1109/2010 sem ætlað er að taka gildi þann 1. júlí nk.  Með breytingunni mun reglulegt dómþing leggjast af á Húsavík og flytjast alfarið til Akureyrar með verulegu óhagræði og kostnaðarauka fyrir íbúa og stofnanir svæðisins en segja má að regluleg dómþing hafa verið haldin í Þingeyjarsýslum allt frá árinu 1262. 

Gangi breytingarnar eftir verður um gríðarlega skerðingu á þjónustu við íbúa að ræða, sem munu þá óhjákvæmilega þurfa að taka á sig aukinn kostnað vegna ferða og vinnutaps þurfi þeir að koma fyrir dóm, hvort heldur sem um er að ræða í saka- eða einkamálum. Við bætist sú hætta að borgarar láti undir höfuð leggjast að sækja rétt sinn ellegar taka til varna vegna þess hve íþyngjandi það er. 

Á hverju ári gefur lögreglustjórinn á Húsavík út tugi ákæra sem hingað til hafa verið þingfestar á Húsavík við reglulegt dómþinghald fyrsta miðvikudag hvers mánaðar en auk þess hefur þinghaldið verið nýtt til að taka fyrir fjölmörg önnur mál með tilheyrandi hagræðingu og sparnaði fyrir héraðsdóm, sýslumannsembættið á Húsavík, íbúa svæðisins og aðra hlutaðeigandi. 

Enginn rökstuðningur er fyrir breytingunum en ætla má að sparnaðarsjónarmið ráði þar för.  Það er hins vegar ljóst að þeir fjármunir sem sparast hjá héraðsdómi Norðurlands Eystra við sameiningu í eina dómþinghá eru bara brot af þeim kostnaði sem mun falla á íbúa svæðisins og sýslumannsembættið á Húsavík við að sækja dómþing til Akureyrar, gangi breytingarnar eftir. 

Framsýn skorar hér með á ráðherra að sýna skynsemi og afturkalla boðaðar breytingar þegar í stað.  Mikilvægt er að ráðherra standi vörð um embættið sem gegnir veigamiklu hlutverki í samfélaginu og hefur gert allt frá söguöld.  Jafnframt hvetur Framsýn ráðherra til að efla embætti sýslumannsins á Húsavík enn frekar í stað þess að grafa undan starfinu með því að draga úr vægi og fjárframlögum til þess. 

Húsavík 8. apríl 2011 

Virðingarfyllst!
Fh. Framsýnar- stéttarfélags 

Aðalsteinn Á. Baldursson

 

Afrit:     Sýslumaðurinn á Húsavík
Dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands eystra
Norðurþing, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit, Langanesbyggð
Þingmenn Norðurlands eystra

Deila á